Alexander Freyr Tamimi er fjárfestingastjóri í framtaksfjárfestingum hjá einum stærsta þjóðarsjóði heims, Abu Dhabi Investment Authority (ADIA), sem fjárfestir fyrir hönd stjórnvalda í Abu Dhabi og er með um 1.100 milljarða Bandaríkjadala í stýringu. Þar hefur Alexander starfað undanfarin fimm ár eftir að hafa áður unnið hjá fjárfestingarbankanum JP Morgan í New York. Hann svaraði nokkrum spurningum um ADIA, Abu Dhabi og samanburðinn við íslenska lífeyrissjóðakerfið.
Hvað er ADIA og hvert er þitt hlutverk þar?
ADIA er einn stærsti stofnanafjárfestir heims og jafnframt einn stærsti framtaksfjárfestir heims. Undanfarin ár höfum við aukið vigt okkar í framtaksfjárfestingum og óskráðum eignum almennt, sem henta vel þolinmóðu fjármagni. Við erum bæði beinn og óbeinn fjárfestir að því leytinu til að við fjárfestum í framtakssjóðum en einnig beint í óskráðum fyrirtækjum eða afskráningum skráðra fyrirtækja, oftast í samstarfi við þá sjóði sem við erum fjárfestar í.
Mitt hlutverk felst í framtaksfjárfestingum á Bandaríkjamarkaði, aðallega í beinum fjárfestingum en einnig í sjóðum. Auk þess fer sífellt meiri tími í að stýra eignasafninu eftir því sem það stækkar.