Beint í umfjöllun

Þrjátíu lítil skref koma Play réttum megin við núllið

Einar Örn Ólafsson ræðir ákvörðunina um að gerast stærsti hluthafinn í nýju flugfélagi, hvernig uppbygging félagsins hafi gengið og hvernig rekstrinum verði komið réttum megin við núllið.

„Mér finnst vera styttra í mark núna en áður og ég þykist sjá hvaða skref þarf að taka til að koma félaginu í plús. Þetta eru ekki stór skref – þau eru allmörg en alls ekki stór – og um leið og fyrirtækið skilar hagnaði þá er markaðsvirðið í dag svo lágt að maður ætti að geta ávaxtað sitt pund nokkuð vel að mínu mati,“ segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður og nýráðinn forstjóri Play, í samtali við Hluthafann.

Play safnaði nýlega 4,5 milljarða króna í lokuðu hlutafjárútboði og í dag hefst opið útboð, þar sem almennum fjárfestum gefst kostur á að skrá sig fyrir hlutum að fjárhæð 500 milljónir króna í flugfélaginu. Einar Örn er í forsvari fyrir Leika fjárfestingar, sem hefur lengst af verið stærsti hluthafinn og varið sinn hlut í gegnum fjögur útboð.

Ef við spólum aðeins til baka þá leikur mér forvitni á að heyra hvernig þú nálgaðist fjárfestinguna árið 2021 þegar fjárfestingafélagið kom myndarlega að fyrsta hlutafjárútboði Play og varð stærsti hluthafinn. Hver var hugmyndin sínum tíma?

„Þegar heimsfaraldurinn gekk yfir hugsaði ég til þess hvernig aðstæður voru eftir efnahagsáfallið 2008. Þá drógu margir sig inn í skel – urðu smeykir – og fyrir þá sem hættu sér út í bisness skömmu eftir hrun var því hægt að gera mjög góða díla og uppskera ríkulega,“ segir Einar Örn.

„Ég hugsaði með mér að eitthvað myndi gefa eftir í ferðaþjónustunni og að hægt væri að gera strandhögg þar. Hugsanlega myndu sum hótel fara í þrot og skilja eftir sig fasteignir sem hægt væri að kaupa á góðu verði en sú varð ekki raunin. Menn höfðu kannski lært af síðasta hruni þannig að niðurstaðan var ekki sú að bankarnir tóku yfir mikið af félögum.“

Þegar ljóst var að heimsfaraldurinn myndi ekki skilja eftir sig mörg kauptækifæri í ferðaþjónustu ákvað Einar Örn ásamt meðfjárfestum sínum að taka þátt í því að byggja upp flugfélag frá grunni. Hugmyndin var sú að rótgróin flugfélög, sem höfðu tekið öll þau lán sem þau gátu komist yfir á meðan reksturinn var í lamasessi, kæmu sködduð frá faraldrinum.

„Það fór þó ekki alveg eins og ég hafði búist við. Sum sátu á miklu lausafé og fengu jafnframt mikla ríkisstyrki. Hin flugfélögin, sem lifðu ekki af sjálfsdáðum, voru endurreist hvort sem reksturinn hafði verið góður eða slæmur. Þannig að forsendurnar reyndust ekki alveg réttar en þó tel ég að þetta hafi ekki verið galinn tíma til að fara af stað með flugfélag.“

Uppbygging flugfélagsins frá grunni hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig, eins og þróunin á hlutabréfamarkaði ber með sér. Gengi bréfanna stendur í tæplega 4,4 krónum á hlut og hefur lækkað um meira en 60 prósent á síðustu 12 mánuðum.

Rekstrartap flugfélagsins nam 2,9 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Í kjölfarið á þriðja fjórðungi, þar sem Play skilaði hagnaði í fyrsta sinn, kom þungur lokafjórðungur, sem litaðist af því hvernig fréttaflutningur af eldsumbrotum hafði áhrif á söluna í nóvember. Einar Örn segir að þessi áhrif séu að mestu leyti að baki.

Þú hefur verið stjórnarformaður félagsins frá upphafi. Hvað kom þér á óvart við uppbyggingu flugfélagsins?

„Það sem hefur komið á óvart er hversu langan tíma tekur að koma sér fyrir á markaðinum. Maður hélt – og heyrði það líka frá þeim sem höfðu tekið þátt í svona verkefni áður – að þetta snerist að mestu um að útvega sér flugvélar, ráða flugmenn og áhöfn, setja miðana í sölu og þá myndi fólk finna miðana á netinu. En þetta gekk hægar fyrir sig og það var flókið að komast á allar leitarsíðurnar,“ segir hann.

„Annað eru tæknimálin sem hafa verið ansi flókin. Það eitt að breyta bókunarsíðunni til að bæta við vörum eins og tryggingum eða bílaleigubílum er tímafrekt og dýrt – miklu dýrara en að bæta við nýrri drykkjarvöru á heimasíðu Bónuss. Það eru alls konar svona mál sem hafa verið tímafrekari og dýrari en ég átti von á þannig að það að ná upp tekjunum hefur verið flóknara verkefni en við bjuggumst við. En í hverjum mánuði miðar okkur í rétta átt og við sjáum auknar tekjur.“

Einar Örn tók við stjórnartaumunum af Birgi Jónssyni sem hafði verið forstjóri flugfélagsins frá upphafi. Þeir störfuðu náið saman – voru eins konar tvíeyki að sögn Einars – og höfðu oftar en einu sinni rætt um að það gæti komið að þeim tímapunkti að þessi forstjóraskipti ættu sér stað.

Viðskiptaferðir talsvert frá fyrra horfi
Farþegafjöldinn hjá Icelandair er kominn í nánast sama horf og hann var árið 2019. En þegar kemur að viðskiptaferðum hefur batinn verið eilítið hægari.

„Birgir hefur sjálfur lýst sér sem forstjóra fyrir fyrirtæki í miklum vexti eða í mikilli umbreytingu frekar en þau sem sigla lygnan sjó. Nú ætla ég alls ekki að segja að ég sé að sigla lygnan sjó en þó er ofurhraði vöxturinn, þar sem við fórum úr engu upp í 500 starfsmenn og 40 milljarða króna veltu, að baki,“ segir hann.

„Þannig að niðurstaðan var þessi. Ég er að auka verulega við það fjármagn sem ég hef lagt félaginu til og fylgi því eftir með því að gefa mig allan að þessu. Og ég myndi ekki gera það nema ég héldi að þetta væri arðvænlegt.“

Hver er stærsta áskorunin sem þú stendur frammi fyrir í þessu nýja hlutverki?

„Á síðasta ári var EBIT-framlegðin neikvæð um 7 prósent. Við erum að gera ráð fyrir því að framlegðin verði í kringum núllið á þessu ári og síðan jákvæð á því næsta. Það er engin ein patentlausn sem brúar þetta bil heldur þurfum við að taka 20 til 30 lítil skref sem hvert gefur manni brot af prósenti. Stóra verkefnið er að viðhalda aga og pressu innan félagsins til þess að flest af þessum atriðum heppnist vel. Við erum með þau útlistuð, vitum hverju þau skila, og megum ekki missa fókus.“

Stórt atriði, sem munu eiga ríkan þátt í því að skila flugfélaginu réttum megin við núllið, eru hliðartekjur (e. ancillary revenues). Áður var það svo, að Play seldi flugmiða og töskupláss í sitthvoru lagi en með uppfærslu á bókunarsíðunni, sem gerði félaginu kleift að selja mismunandi pakka, jukust hliðartekjur úr 42 Bandaríkjadölum á hvern farþega upp í 54 dali milli ára.

Hliðartekjurnar líta nokkuð vel út í samanburði við önnur flugfélög og margar lausnir eru í smíðum til að hífa þær enn hærra. Þar má nefna aukið samstarf við ferðaskrifstofur, aukna sjálfsafgreiðsla um borð í flugvélum og fríðindakerfi. Annað stórt atriði er sætanýtingin sem var 83 prósent á síðasta ári.

„Eftir kóvid hefur sætanýtingin hjá flestum lággjaldaflugfélögum verið lægri en hún var fyrir faraldurinn. Við erum að gera ráð fyrir að sætanýtingin batni í ár, enda erum við orðin þroskaðra félag og þekktara vörumerki á þeim áfangastöðum sem við fljúgum til. Þannig að við gerum ráð fyrir að það sem við höfum fjárfest í nýjum áfangastöðum muni skila meiri tekjum á hverja sætiseiningu.“

Nýjustu tölurnar fyrir mars sýna 88,1 prósents sætanýtingu samanborið við 80,6 prósenta nýtingu í sama mánuði í fyrra. 

Frá sjónarhóli innlenda keppinautarins er þó ekki augljós rekstrarlegur grundvöllur fyrir tvö íslensk tengiflugfélög með heimahöfn á Keflavíkurflugvelli. Í ræðu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á síðasta aðalfundi voru rifjuð upp þriggja ára gömul hans ummæli um að fyrirkomulagið væri ósjálfbært. Honum virtist, miðað við þróunina síðan þá, að ummælin ættu enn vel við.

„Það er ekki náttúrulögmál að ferðamenn streymi til landsins“
Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, ræðir ferðamannaárið 2024, viðleitni stjórnvalda til að skattleggja ferðaþjónustu og mögulega skráningu fyrirtækisins í framtíðinni.

Einar Örn bendir á að rekstraráætlanir beggja félaga geri ráð fyrir jákvæðri afkomu í núverandi umhverfi.

„Ég ætla ekki að leggja mat á það hvort vöxtur Icelandair sé sjálfbær til lengri tíma eða ekki. Þeir segjast sjálfir vera með tiltekna afkomu í ár og ef forsendurnar eru að við séum að starfa við hliðina á þeim þá er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ segir hann.

„Þetta snýst kannski meira um heildarframboðið. Eins og á öðrum mörkuðum þá er best að framboð og eftirspurn séu í takti. Ég held að það skipti ekki öllu máli hvort við séum með 10 vélar og Icelandair 35 vélar, eins og staðan er í dag, eða að eitt félag sé með 45 vélar. En ef bæði félög ætluðu að fara í 100 véla flota á næstu 10 árum þá myndi eitthvað líklega gefa eftir.“

Play áformar að stækka flotann úr 10 vélum upp í 20 vélar árið 2029 og á sama tíma gerir Icelandair ráð fyrir að geta komist upp í allt að 54 vélar á árinu 2030 ef áætlanir um vöxt ganga eftir. Er hægt að samrýma þessi stækkunaráform?

„Okkur er nauðsynlegt að stækka flotann til að bæta tengimöguleika og þétta kerfið. Þannig að við munum stækka og ef við skoðum flugsöguna í Evrópu síðustu áratugina þá hefur reglan verið sú að rótgróin flugfélög stækka lítið á meðan lággjaldaflugfélög koma sér fyrir á markaðinum. Enda er ekki endalaust af viðskiptavinum sem eru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir flugmiðann en þeir geta fengið hjá lággjaldaflugfélaginu.“

Bankastjóri Arion banka hefur leitt líkur að því að stærstu fjárfestarnir í Play horfi til þess að flugfélagið verði hluti af stærri samstæðu? Er þetta möguleg og líkleg sviðsmynd?

Um þessar mundir er að verða töluverð samþjöppun í fluggeiranum í Evrópu.  Þetta ferli er að mestu að baki í Bandaríkjunum en nú er Evrópa á fullri ferð.  Við sjáum SAS vera að falla inn í eina af samstæðunum, Tap í Portúgal virðist verða næst og svona mun þetta halda áfram. Í Bandaríkjunum hefur reglan verið að vörumerkin hverfa en í Evrópu hefur það frekar verið þannig að minni félögin starfa áfram sjálfstætt, a.m.k. að hluta til, innan þessara stóru samstæðna, útskýrir Einar Örn.

Hvað varðar Play þá held ég að okkar góða félag sé a.m.k. enn sem komið er heldur lítið fyrir þessi stóru félög til að þau séu að horfa girndaraugum á okkur. Með auknum viðgangi okkar og vexti þá er ekkert útilokað að eitthvað slíkt gerist en það er nú ekki eitthvað sem við erum að horfa til.

Ofurlág fargjöld heyra sögunni til
Framtíðarsýnin um ókeypis flugmiða virðist órafjarri nú þegar hinn gríðarmikli kostnaður við minnkun útblásturs í flugiðnaðinum er byrjaður að taka á sig mynd.

Eftir fjárhagslegt högg í kringum áramótin tók salan hjá Play fljótt við sér og neikvæðu áhrifin af fréttaflutningi um eldgos hafa dvínað verulega. Atburðarásin hefur þó vakið spurningar um það hvernig fjöldi ferðamanna þróast á þessu ári og hún er þörf áminning, segir Einar Örn, um að ferðamannastreymið, sem stóð undir 8,5 prósentum af vergri landsframleiðslu á síðasta ári, sé ekki sjálfsagður hlutur.

Ákall um hækkun virðisaukaskatts á greinina, sem myndi bætast ofan á skyndilega hækkun gistináttaskattsins síðustu áramót, skjóti því skökku við.

„Stundum finnst mér eins og stjórnmálamenn og þeir sem fjalla um hagkerfið tali eins og ferðaþjónustan sé hagkerfinu til trafala og að það sé sjálfsagt mál að hækka skatta á greinina. Þetta er stærsta útflutningsgreinin okkar en það er ekki sjálfsagt að svo verði áfram ef menn ætla að tala greinina niður og fara með hana eins og úrhrak sem hægt er að sparka í. Þessi árátta hér á landi til að skattleggja allt sem hreyfist er ofar mínum skilningi. Hækkun virðisaukaskatts myndi hafa í för með sér verulega kjaraskerðingu fyrir allan almenning í landinu.“

Höfundur á smávægilegan hlut, um 15.542 bréf, í Fly Play hf.

Umfjallanir