Beint í umfjöllun

Ofurlág fargjöld heyra sögunni til

Framtíðarsýnin um ókeypis flugmiða virðist órafjarri nú þegar hinn gríðarmikli kostnaður við minnkun útblásturs í flugiðnaðinum er byrjaður að taka á sig mynd.

Flugfargjöld lækkuðu verulega á tímabilinu 2014 til 2020 en hafa risið síðan. Hluthafinn/T. Aladashvili

Ef þú áttir erindi í Stokkhólmi á árinu 2018 var mögulegt að finna strípaðan flugmiða frá Keflavíkurflugvelli á einungis sex þúsund krónur. Í öfugri þróun við almennt verðlag höfðu flugfargjöld lækkað verulega á nokkrum árum – aðallega vegna hagstæðrar þróunar á olíuverði – og stjórnendur lággjaldaflugfélaga sáu fyrir sér að verðið myndi halda áfram að leita niður á við.

Framtíðarsýn Michael O’Leary, forstjóra Ryanair, var sú að flugfélagið gæti selt flugmiðana ókeypis en á móti fengið hlutdeild í tekjunum sem stóraukin umferð um flugvelli myndi skapa. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, tók í sama streng en hann taldi að aðaltekjur flugfélaga gætu komið frá sölu á hótelgistingu, leigu á bílum og sambærilegri þjónustu.

Skilyrðin fyrir þessari framtíðarsýn eru ekki lengur fyrir hendi og til marks um gjörbreyttar horfur í greininni var nýlega haft eftir fyrrnefndum O’Leary að ofurlág fargjöld, svo sem 10 evrur fyrir flug innan Evrópu, heyrðu sögunni til. Eftir miklar hækkanir í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu stendur verð á flugvélaeldsneyti í nærri 1.000 Bandaríkjadölum á hvert tonn og er meira en tvöfalt hærra en það var að jafnaði árið 2016.

Hærri eldsneytiskostnaður, sem nemur jafnan þriðjungi af rekstrarkostnaði flugfélaga, endurspeglast í þeirri staðreynd að verðlækkunin á síðasta áratug hefur gengið til baka að töluverðu leyti. Eftir 50 prósenta lækkun fargjalda milli áranna 2014 til 2019 sýndi verðmæling Hagstofunnar í júlí rúmlega 30 prósenta hækkun frá árinu 2019.

„Í upphaflegu viðskiptaáætluninni var gert ráð fyrir að eldsneytisverð yrði að meðaltali 660 dalir,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, sem hóf áætlunarflug árið 2021. Eins og áður kom fram stendur eldsneytisverð í nærri 1000 dölum, um 50 prósentum yfir því sem íslenska lággjaldaflugfélagið hafði gert ráð fyrir.

„Þetta setur gríðarlegan þrýsting á öll flugfélög að hækka verðin, en þau hafa hækkað hægar en flestir bjuggust við og í raun og veru hafa mörg flugfélög reynt að taka þessar hækkanir á sig til að búa til eftirspurn.“

En það er ekki einungis verð á hefðbundnu eldsneyti sem setur þrýsting á fargjöld. Tvær stórar breytingar á vegum Evrópusambandsins, sem miða að því að eyða kolefnisspori flugfélaga fyrir árið 2050, vofa yfir atvinnugreininni og munu hafa þau áhrif að auka kostnað við flugrekstur til frambúðar.

Önnur breytingin snýr að evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir, svokölluðu ETS-kerfi. Í ljósi langrar rekstrarsögu fær Icelandair endugjaldslausa úthlutun heimilda, sem stóð undir 46 prósentum af kolefnislosun Evrópuflugsins í fyrra, en greiðir markaðsverð fyrir restina. Play hefur hins vegar þurft að kaupa heimildir fyrir alla þá losun sem rekja má til flugferða innan álfunnar og nam kostnaðurinn í fyrra um 8,7 milljónum dala.

„Þegar þetta leggst jafnt yfir öll flugfélög þá hækka fargjöldin sem því nemur, eða þá að þau flugfélög, sem eru með lægri einingakostnað, geta tekið þetta á sig og orðið enn samkeppnishæfari“

Endurgjaldslaus úthlutun heimilda minnkar í stórum skrefum á næstu árum, rennur síðan út í lok árs 2026 og verður þá öllum evrópskum flugfélögum gert að kaupa heimildir, sem hafa margfaldast í verði á örfáum árum, fyrir öllu flugi innan álfunnar.

Samkvæmt nýlegu samkomulagi á milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins  munu íslensk flugfélög þó njóta undanþágu frá ört minnkandi úthlutun heimilda fram til ársins 2027. Birgir segir að þangað til fái Play úthlutun í sama hlutfalli og Icelandair.

Kostnaðaraukinn fyrir sex stærstu flugfélög Evrópu – og þá eru smærri félög á borð við Icelandair og Play ótalin – var metinn á 5 milljarða evra, eða sem nemur 650 milljörðum króna, af eignarstýringarrisanum Bernstein og það gæti skilað sér í 10 evru hækkun á flugmiðaverði fram og til baka.

Hluthafinn lítur dagsins ljós
Hluthafinn er nýr áskriftarmiðill — stofnaður í ágúst 2023 — sem fjallar með ýtarlegum hætti um íslenskt viðskiptalíf og þróun efnahagsmála.

„Þegar þetta leggst jafnt yfir öll flugfélög þá hækka fargjöldin sem því nemur, eða þá að þau flugfélög, sem eru með lægri einingakostnað, geta tekið þetta á sig og orðið enn samkeppnishæfari,“ segir Birgir.

Hin breyting snýst um að skipta hefðbundu flugvélaeldsneyti út fyrir sjálfbært flugvélaeldsneyti. Samkvæmt nýlegum Evrópureglugerðum verða flugfélögin að taka í notkun blandað eldsneyti sem er 2 prósent sjálfbært árið 2025 og hlutfallið hækkar í skrefum upp í 63 prósent fram til ársins 205o.

Vandinn er hins vegar sá að sjálfbært eldsneyti stendur aðeins undir brotabroti af heildarnotkun flugfélaga á heimsvísu og er að minnsta kosti tvöfalt dýrara. „Stóra málið er sjálfbært eldsneyti en það er ekkert framboð. Þú ert skyldugur til að nota vöru sem er ekki til,“ segir Birgir.

Þegar allt er tekið saman; losunarheimildir, sjálfbært eldsneyti og aðrar kvaðir, gæti kostnaðurinn, sem evrópski flugiðnaðurinn þarf að taka á sig til að ná niður losun fyrir árið 2050, numið um 820 milljörðum evra samkvæmt mati greiningarfyrirtækisins SEO Amsterdam Economics. Möguleikinn á sex þúsund króna fargjaldi frá Keflavíkurflugvelli til Arlanda, eins og stóð til boða í byrjun árs 2018, verður því sífellt fjarlægari.

„Það er að einhverju leyti búið að koma þeirri hugmynd í huga fólks að flugferð til Evrópu geti kostað nokkra þúsund kalla. En við verðum að horfast í augu við það að við erum úti á ballarhafi, við viljum borga góð laun og viljum ekki að atburðir eins og fall WOW air endurtaki sig,“ segir Birgir.

Umfjallanir