Beint í umfjöllun

„Það er ekki náttúrulögmál að ferðamenn streymi til landsins“

Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, ræðir ferðamannaárið 2024, viðleitni stjórnvalda til að skattleggja ferðaþjónustu og mögulega skráningu fyrirtækisins í framtíðinni.

„Hvort sem það var vegna niðurdrepandi stöðu á verðbréfamarkaði eða vegna þess að mér fannst ekki nógu spennandi að skoða RB-kúrfuna á hverjum morgni þá ætlaði ég að hætta og fara að sinna eigin verkefnum,“ segir Ásgeir Baldurs, sem var ráðinn forstjóri Artic Adventures í maí 2023.

Eignarhald ferðaþjónustufyrirtækisins hafði þá tekið umtalsverðum breytingum. Fjárfestingafélagið Stoðir leiddi hóp innlendra fjárfesta sem gekk frá kaupum á ríflega 40 prósenta hlut og var fyrirtækið metið á 12,3 milljarða króna í viðskiptunum.

„Ég á lítið fyrirtækið, dráttarbílafyrirtækið Krók, og hafði hugsað mér að sinna því þegar ég fékk símtal frá Lárusi Welding sem bauð mér að taka við Arctic Adventures. Þau leituðu að stjórnanda sem hafði þekkingu á rekstri, fjármögnun og kaupum á fyrirtækjum. Bæði reynslu úr raunhagkerfinu og fjármálageiranum.“

Ferilskráin nær yfir marga ólíka geira. Eftir viðskiptanám í Bandaríkjunum lá leiðin til Húsavíkur þar sem Ásgeir vann fyrir Kaupfélag Þingeyinga í fimm ár, meðal annars við rekstur matvöruverslana og markaðsmál fyrir kjötvinnsluna. Hann stýrði markaðsmálum Goða, sem þá var í eigu gömlu kaupfélaganna, var ráðinn sölu- og markaðsstjóri VÍS og varð síðan forstjóri tryggingafélagsins.  

Árið 2007 byrjaði Ásgeir að sinna eigin fjárfestingum og keypti meðal annars hlut í  bifreiðaskoðunarfélaginu Frumherja og vegaþjónustufyrirtækinu Viking Redningstjeneste í Noregi. Frumherji fór illa út úr efnhagshruninu og í kjölfarið kom hann að endurskipulagningu félagsins með Íslandsbanka, sem lauk með sölu fyrirtæksins til núverandi eigenda. Vikinga Redningstjeneste var fjárfesting sem gekk vel og var félagið selt til alþjóðlegs fjárfestingasjóðs árið 2009. 

„Ég treysti mér ekki til að spá því hvernig árið endar en ég myndi segja að það væru töluverðar líkur á stöðnun“

Þá var hann um nokkurra ára skeið meðeigandi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Expectus, síðan forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga og fyrirtækjaráðgjafar hjá Kviku og loks fjárfestingastjóri TM. En þrátt fyrir mjög fjölbreyttan feril hafa verið mikil viðbrigði að taka við einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.  

„Hraðinn í ferðaþjónustunni er mikill. Þegar maður var í tryggingunum þá tók langan tíma fyrir afleiðingar ákvarðana, hvort sem þær voru góðar eða slæmar, að koma í ljós. Ef þú verðlagðir áhættu með röngum hætti fékkstu tjónið í andlitið tveimur eða þremur árum síðar. Markaðsátak skilaði sér ekki í aukinni sölu fyrr en eftir eitt ár eða svo. Í ferðaþjónustunni er það hins vegar þannig að ef þú tekur ranga ákvörðun í dag þá koma afleiðingarnar strax í ljós,“ segir Ásgeir.  

„Þetta reynir á alla þá reynslu sem maður hefur aflað sér hvað varðar mannleg samskipti, sölu- og markaðssetningu, kaup á fyrirtækjum, hagkvæmni í rekstri, gjaldeyrisvarnir og svo framvegis. Og svo er fullt af áskorunum og sjaldan sléttur sjór en það er það sem er skemmtilegt við þetta.“ 

Stærsta söluvara Arctic Adventures eru margra daga ferðir (e. multi-day tours), bæði hringinn í kringum landið eða innan ákveðinna landshluta. Í ferðunum er jafnan fólgin afþreying á vegum fyrirtækisins, svo sem köfun í Silfru, jöklagöngur, heimsóknir í ísgöngin í Langjökli eða Raufarhólshelli í þrengslunum. Þá rekur fyrirtækið hótel á Kirkjubæjarklaustri, Hofi í Öræfum og Hellissandi, og Óbyggðasetrið í Fljótsdal. Nýjasta viðbótin er síðan Kerið í Grímsnesi, sem var keypt í október.  

„Í deiliskipulaginu er heimild til að byggja þjónustuhús og við stefnum á að gera það. Síðan gætum við boðið upp á viðburði eða meiri leiðsögn í kringum Kerið en viljum ekki festast í fyrirframgefnum hugmyndum. Fyrst þurfum við að skilja betur hvernig staðurinn virkar og hvernig streymið er um svæðið svo að við getum áttað okkur á því hvernig best sé að byggja upp aðstöðuna,“ segir Ásgeir.

Hagvöxtur gæti staðið tæpt á fyrsta fjórðungi eftir þungan janúar
Vísbendingar eru um að hótelgestum hafi fækkað á bilinu 10-20 prósent í janúar.

Kröftugur söluvöxtur upp á tæp 40 prósent kom tekjum fyrirtækisins vel yfir 7 milljarða króna á árinu 2023 en lokaspretturinn litaðist af þeim áhrifum sem jarðhræringarnar á Reykjanesskaga höfðu almennt á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Þetta hafði töluverð áhrif í desember og janúar, en febrúar lítur „allt í lagi út“ að sögn Ásgeirs.  

„Síðan eru aðrir þættir sem spila inn í. Árin 2022 og 2023 hafði safnast upp mikill sparnaður og mikil ferðaþrá; fólk var tilbúið að eyða miklu í ferðir og afþreyingu. Það sem við sjáum núna er meiri verðnæmni á markaðinum. Þó svo að ferðaviljinn sé áfram mikill hefur fólk minna á milli handanna til að eyða í ferðalög og við sjáum það birtast í styttri ferðalögum,“ segir hann.  

„Það er ekki nóg að horfa á töluna um fjölda ferðamanna – þeim fjölgaði í janúar á sama tíma og gistináttum fækkaði – enda skiptir lengd dvalarinnar máli upp á það hversu mikla afþreyingu og þjónustu þeir kaupa. Það er alveg klárt að fólk er að fara í styttri ferðir og eyða minni fjármunum á landinu.“  

Ferðamönnum fjölgaði um 8 prósent milli ára í janúar en í sama mánuði dróst erlend kortavelta á föstu gengi saman um 3,8 prósent. Kortavelta á hvern ferðamann var því töluvert minni í janúar nú en fyrir ári og nam samdrátturinn 11 prósentum milli ára á föstu gengi.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að 2,3 milljónir ferðamanna komi til landsins í ár, sem væri aukning frá því í fyrra þegar 2,2 milljónir komu til landsins. Nú þegar liðið er á febrúar hvaða tilfinningu hefurðu fyrir ferðamannaárinu 2024? 

„Það er ekki sjálfgefið að ferðamönnum fjölgi um 2-5 prósent á ári eins og flest módelin gera ráð fyrir. Í október, áður en jarðhræringarnar hófust, vorum við bjartsýn og almennt var tilfinningin sú að árið 2024 yrði mjög sterkt ferðamannaár. Nú held ég að það verði krefjandi að ná töluverðri aukningu ferðamanna á árinu. Allar breyturnar eru á svo mikilli hreyfingu þannig að ég treysti mér ekki til að spá því hvernig árið endar en ég myndi segja að það væru töluverðar líkur á stöðnun,“ segir Ásgeir. 

Hvernig rímar það við þá viðleitni stjórnvalda að hækka skatta á greinina, t.d. með hækkun gistináttaskattsins um áramótin, og orðræðu um að koma þurfi böndum á ferðamannastrauminn? 

„Mér fannst umræðan um að Ísland væri uppselt, og að þess vegna þyrfti að skattleggja greinina til að fækka ferðamönnum, lýsa mikilli vanþekkingu og senda vond skilaboð. Við myndum ekki búa við sömu lífsgæði eða sama úrval af veitingastöðum og afþreyingu ef við hefðum ekki ferðamenn til að standa undir þessu öllu og stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því að aðgerðir, eins og hækkun gistináttaskatts með skömmum fyrirvara, hafa heilmikið áhrif. Sumir kalla mig Framsóknarmann en í grunninn er ég  frjálshyggjumaður, og mér hefur fundist vanta að stjórnvöld leggi áherslu á að bæta skilyrði greinarinnar og stækka kökuna frekar en að líta á hana sem vannýttan skattstofn,“ segir Ásgeir.  

„Við erum í harðri samkeppni við marga áfangastaði og það er ekki náttúrulögmál að ferðamenn streymi til landsins. Við þurfum að hafa fyrir því að byggja upp aðstöðu þannig að upplifun ferðamanna sé í samræmi við það sem þeir borga. Það gildir líka um betur borgandi ferðamann sem hafa næmt verðskyn, ólíkt því sem stundum má ráða af umræðunni.“ 

Það voru uppi áform um að skrá Arctic Adventures í Kauphöllina á síðari hluta árs 2023 en ekki er hægt að álykta annað en að því hafi verið slegið á frest. Er enn stefnt að skráningu? 

„Eigendur félagsins stefna að því að skrá félagið á markað en til þess þarf að stækka það enn frekar og bæta afkomuna. Það gæti gerst hratt en gæti líka tekið tíma. Við viljum byggja félagið upp á skynsamlegan hátt þannig að það verði álitlegur fjárfestingarkostur fyrir almenning, lífeyrissjóðir og aðra fjárfesta þegar þar að kemur,“ segir Ásgeir.  

Sameiginlegt félag Arctic Adventures og kanadíska fjárfestingafélagsins Pt Capital hafði keypt 50 prósenta hlut í Alaska Tours og Alaska Private Touring árið 2022. Starfsemin í Alaska var hins vegar seld vorið 2023 samhliða fyrrnefndum breytingum í eigendahópnum. Kaupendur voru hluthafarnir sem seldu hlut sinn í Arctic Adventures til Stoða, sjóða í stýringu Landsbréfa og annarra fjárfesta.  

„Það má segja að það hafi verið mismunandi skoðanir í hluthafahópnum. Ákveðnir hluthafar vildu byggja upp starfsemina í Alaska en aðrir vildu einbeita sér að tækifærunum á Íslandi. Ferðaþjónustan er ung grein sem óx gríðarlega hratt og var síðan sett í dvala á meðan heimsfaraldrinum stóð. Viðspyrnan árin 2022 og 2023 hefur reynt á mörg fyrirtæki og að mínu mati er enn mikil þörf á því að búa til stærri og hagkvæmari einingar. Markaðurinn er enn mjög dreifður,“ segir Ásgeir.  

„Í þessu samhengi þarf líka að hafa í huga að íslensku ferðaþjónustufyrirtækin eru ekki stór í samanburði við erlend fyrirtæki, sem eru með umfangsmikla starfsemi á Íslandi og taka til sín stóran hluta af tekjunum sem ferðamenn verja hér á landi.“ 

Umfjallanir