Beint í umfjöllun

Unbroken byggir upp vörumerki í „heimsklassa“ með risasamningi við Lidl-Trek

Sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken hefur gert samstarfssamning við hjólreiðaliðið Lidl-Trek, sem er „stærsti samningur af þessu tagi sem íslenskt vörumerki hefur gert“ að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Samningurinn þýðir að vörumerkinu bregður fyrir í keppni sem nær til meira en 3 milljarða áhorfenda um allan heim og jafnframt verður Unbroken sett í víðtækt dreifinet hjá alþjóðlegu stórfyrirtækjunum sem standa á bak við hjólreiðaliðið.

„Við erum lítið fyrirtæki sem er að fara inn í mjög stórt sviðsljós,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken, í samtali við Hluthafann.

Unbroken framleiðir samnefnt fæðubótarefni í formi freyðitaflna, sem gefur hraða vöðvanæringu úr niðurbrotnu laxapróteini og er byggt á áralöngum rannsóknum og þróunarvinnu. Það er frábrugðið öðrum hefðbundnum próteinvörum að mikilvægu leyti:

„Prótein er eins og legóhús og amínósýrur eru kubbarnir. Mjólkurframleiðendur hafa náð gríðarlegum árangri í því að koma mysupróteini á framfæri en þá ertu að innbyrða heilt hús úr 170 kubbum sem eru fastir saman. Líkaminn þarf síðan að nota ensím úr munnvatninu og brisinu til að búta það niður í staka kubba,“ útskýrir Steinar.

„Okkur hefur tekist, með vísindalegum aðferðum, að nota ensím úr maga laxins og líkja eftir meltingarfæri mannsins til að búta próteinið niður í einn, tvo og þrjá kubba, þannig að þú færð það út í blóðið á 5 til 10 mínútum. Endurheimt vöðvanna hefst því mun hraðar.“

Fæðubótarefnið er framleitt í norskri verksmiðju sem Steinar keypti ásamt íslensku meðfjárfestunum Jóni Rúnari Halldórssyni og Þórði Hermanni Kolbeinssyni árið 2018. Þá var próteinið selt sem duft í heildsölu til lyfjafyrirtækja í Asíu, sem notuðu það til framleiðslu á fæðubótarefni fyrir sjúklinga sem glíma við meltingarfæravandamál.

„Ef þú nærð fótfestu í hjólreiðaheiminum þá opnast dyr að öðrum íþróttum“

Íslensku fjárfestarnir sáu hins vegar tækifæri í því að byggja upp eigið vörumerki fyrir neytendamarkað. Vörumerkið Unbroken var sett á markað á Íslandi árið 2019 og eftir að hafa náð fótfestu í mörgum íþróttagreinum, þar á meðal Crossfit og handbolta, nemur uppsöfnuð sala 250 þúsundum stykkja.

Stóri vendipunkturinn var hins vegar í fyrra þegar Andy Schleck, sem sigraði í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, 2010, prófaði Unbroken og hreifst svo af vörunni að hann kynnti hana fyrir yfirlækni hjólreiðaliðsins Lidl-Trek.

Þessi umfjöllun er eingöngu ætluð áskrifendum

Áskrift

Ertu nú þegar með reikning? Innskráning

Umfjallanir