Beint í umfjöllun

Öfgar í eftirlitskerfinu

Tvö innviðafyrirtæki – annað í einkaeigu en hitt í ríkiseigu – fá mjög ólíka meðferð hjá eftirlitsstofnunum.

Míla og Íslandspóstur eru ekki í svo ólíkri stöðu. Fyrirtækin reka bæði innviði fyrir samfélagslega mikilvæga þjónustu og hafa verið markaðsráðandi á sínu sviði. Í ljósi þess sæta þau áþekkum kvöðum, svo sem þeirri að gjaldskráin á óvirkum markaðssvæðum skuli miðast við kostnað þjónustunnar að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Það er hins vegar skýr eðlismunur á fyrirtækjunum. Stjórnendum Mílu er falið það verkefni að hámarka hagnað – enda í eigu fagfjárfesta sem gera arðsemiskröfu – og hlutverk eftirlitsins er því að fyrirbyggja að Míla misnoti markaðsráðandi stöðu til að rukka einokunarverð.

„Stjórnvöld fóru hins vegar í þveröfuga átt með því að færa eftirlit með póstmarkaði frá Fjarskiptastofu til Byggðastofnunar. Það hefur reynst hið mesta óráð, eins og bersýnilega sést á háttsemi Íslandspósts“

Annað gildir um ríkisfyrirtækið Íslandspóst. Frá því að einkarétturinn á bréfasendingum var afnuminn árið 2019 hefur Pósturinn reitt sig á ríkisframlög til að fjármagna tapreksturinn. Hinir innbyggðu hvatar, sem stýra stefnu fyrirtækisins, verka í átt að því að verðleggja þjónustuna undir kostnaði, ryðja þannig keppinautum úr vegi og senda ríkinu reikninginn. Allt eftirlit þarf að taka mið af þessum hvötum.

Hvað Mílu varðar hefur Fjarskiptastofa tekið hlutverk sitt alvarlega, og raunar svo alvarlega að Míla sætir íþyngjandi kvöðum að ósekju. Kvaðirnar hafa helgast af markaðshlutdeild á landsvísu og stofnunin dró í lengstu lög að skipta fjarskiptamarkaðinum upp í aðskilda markaði. En eftir tveggja ára brölt og þrýsting frá æðri stjórnvöldum var hún nauðbeygð.

Niðurstaðan var sú að það væri sannarlega virk samkeppni í 31 sveitarfélagi þar sem 80 prósent landsmanna búa og því ástæða til að aflétta kvöðum í umræddum sveitarfélögum. Þó er varfærnin slík að enn hvíla bráðabirgðakvaðir á innviðafélaginu þar til endanleg ákvörðun verður tekin.

Niðurgreidd samkeppni í skjóli eftirlitsins
Íslandspósti er leyft að fá ríkisframlög vegna reksturs á samkeppnismörkuðum og verðleggja þjónustu sína undir kostnaði. Lögin, sem áttu að opna fyrir samkeppni á póstmarkaði, eru því að engu höfð.

Öfugt við Mílu hefur Íslandspóstur um nokkurra ára skeið notið góðs af því hvernig markaðinum var skipt upp. Fyrirtækið fær ríkisframlög vegna tapreksturs á óvirkum markaðssvæðum en á mörgum þeirra er í reynd virk samkeppni þar sem fjöldi keppinauta veitir þjónustu 5 daga vikunnar.

Þegar Míla vill breyta verðskrá sinni vegna kostnaðarhækkana þarf Fjarskiptastofa að samþykkja kostnaðargreiningu á þjónustunni. Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, sagði við Hluthafann fyrir rúmlega mánuði síðan að ein kostnaðargreining hefði verið til meðferðar hjá eftirlitsstofnuninni í meira en eitt ár. Það að geta ekki breytt verðum í samræmi við verðlagsþróun hefur kostað innviðafyrirtækið hátt í 300 milljónir króna á síðustu tveimur árum.

Á sama tíma fær Íslandspóstur að halda verðum sínum vel undir kostnaði. Ríkisfyrirtækið kemst upp með gríðarlegan taprekstur þrátt fyrir að verðskráin eigi samkvæmt lögum að taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Ef eftirlit með póstmarkaðinum, sem er í höndum Byggðastofnunar, virkaði sem skyldi yrði Póstinum gert að hækka verðskrána þannig að hún endurspeglaði kostnað þjónustunnar.

„Óréttmætar“ kvaðir kostuðu Mílu hundruð milljóna króna
Kvaðirnar gera það að verkum að nánast allar viðskiptalegar ákvarðanir Mílu þurfa samþykki Fjarskiptastofu sem getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár.

Afleiðingin af þessu eftirlitsleysi er sú að fjárveitingar til Póstsins eru fjórfalt meiri en gert var ráð fyrir þegar lögum um póstmarkaðinn var breytt árið 2019. Þá var lagt upp með að kostnaður ríkissjóðs af póstþjónustu yrði á bilinu 200-250 milljónir króna á ári en til samanburðar nam síðasta ríkisframlagið til Íslandspósts 846 milljónum króna. Óþarfi er að tíunda hvernig þetta raskar samkeppni á markaðinum.

Erik Torras hjá Mílu lýsti vandanum þannig að fyrirtækið væri undir eftirliti stofnunar sem hefði ekki nauðsynlega burði til að sinna skyldum sínum. Eflaust myndu keppinautar Íslandspósts lýsa Byggðastofnun með svipuðum hætti.

Ekki er svo langt síðan að uppi voru hugmyndir um sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Fjarskiptastofu, og voru kostirnir reifaðir í fýsileikagreiningu árið 2015. Þar kom meðal annars fram að sameinuð stofnun gæti betur valdið þeim verkefnum sem henni yrðu falin samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.

Stjórnvöld fóru hins vegar í þveröfuga átt með því að færa eftirlit með póstmarkaði frá Fjarskiptastofu til Byggðastofnunar. Það hefur reynst hið mesta óráð, eins og bersýnilega sést á háttsemi Íslandspósts.

Umfjallanir