Beint í umfjöllun

„Hlut­hafar taki af­stöðu til helstu skil­mála kaup­réttar­samninga“

Gildi-lífeyrissjóður greiddi atkvæði gegn tillögu um kaupréttarkerfi hjá Reginn þar sem tillagan fól stjórn fasteignafélagsins að ákvarða helstu skilmála kaupréttarsamninganna. Lífeyrissjóðurinn segir rétt að hluthafar taki afstöðu til helstu skilmálanna í slíkum samningum.

Hvatakerfið sem er nú þegar í gildi hjá Regin er þannig að lykilstjórnendur geta unnið sér inn kaupauka, sem getur að mestu orðið ígildi þriggja mánaðarlauna. Á aðalfundi Regins í gær var lögð fram tillaga stjórnar um kaupréttarkerfi og hækkun hlutafjár til að standa undir því.

Samkvæmt tillögunni yrði stjórn Regins heimilt að gera kaupréttarsamninga við forstjóra og æðstu stjórnendur félagsins, úthluta allt að 1,33 prósentum hlutafjár til þeirra og jafnframt ákvarða helstu skilmála samninganna. Gildi, sem fer með tæplega 8 prósenta hlut í fasteignafélaginu, greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögunni.

„Að mati Gildis-lífeyrissjóðs er rétt að hluthafar taki afstöðu til helstu skilmála kaupréttarsamninga þegar slík kerfi eru samþykkt. Ekki sé nægilegt í þeim efnum að mögulegir skilmálar komi fram í greinargerð með viðkomandi tillögu,“ segir í bókun Gildis, sem var birt í fundargerð aðalfundar.

„Auk þess skortir sérstaklega á skýrleika varðandi fyrirsjáanleika um mögulega úthlutun til hvers stjórnanda, s.s. hlutfallsleg hámörk í þeim efnum. Þá eru hugmyndir í greinargerð um 3 prósenta hækkun nýtingarverðs kauprétta á milli ára að mati sjóðsins ekki nægilegar með það fyrir augum að tengja saman hagsmuni hluthafa og stjórnenda.“

Meirihluti atkvæða, rúmlega 55 prósent, féll með tillögunni en þar sem um var að ræða breytingu á samþykktum þurfti samþykki 67 prósent atkvæða til að fá tillöguna samþykkta. Setið var hjá fyrir 17 prósent atkvæða.

Umfjallanir