Beint í umfjöllun

Bandarískum íhaldsmönnum hefur orðið mikið ágengt í baráttu sinni gegn útbreiðslu ESG í fjármálakerfinu. Í sumum ríkjum þar sem repúblíkanar eru við völd hafa reglugerðir um upplýsingagjöf um ESG verið þynntar út og jafnframt hefur þeim tekist að draga tennurnar úr fyrirtækjasamtökunum Climate Action 100+, sem þjóna þeim tilgangt að þrýsta á loftslagsvænar breytingar á aðalfundum skráðra félaga, með því að saka samtökin um ólöglegt samráð.

Í ofanálag hafa opinberir sjóðir í ríkjum á borð við Texas og Flórída tekið stórar fjárhæðir úr stýringu hjá BlackRock, eignastýringarrisanum sem hafði sett ESG á oddinn.

„Það er ólga á fjármálamörkuðum í kringum hugtakið ESG og hughrifin á stundum neikvæð á meðal sumra,” segir Bjarni Herrera, eigandi ráðgjafarfyrirtækisins Accrona. Hann gaf nýlega út bókina Supercharging Sustainability, sem dregur upp stóru myndina í fyrirtækjasjálfbærni og sjálfbærum fjármálum fyrir hinn almenna leikmann.

Ljóminn af Nettó-Núll markmiðum bankanna fer hverfandi
Tveir íslenskir bankar hafa gengið í bandalagið Net-Zero Alliance og stefnt að því að ná kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Leiðin að markmiðinu, eins og hefur runnið upp fyrir erlendum fjármálarisum, er þó heldur óljós.

„Þessi ólga tekur á sig þá mynd að ákveðin stórfyrirtæki, sem eru í grunninn amerísk þótt þau starfi alþjóðlega, t.d. Blackrock og S&P, eru að endurhugsa notkun á hugtakinu. Þau hafa minnkað ESG í orðaforðanum en tala þess í stað beint um mannréttindi, loftslagsbreytingar o.s.frv. Þetta hefur á endanum áhrif á það hvernig almennt er talað um ESG og það er erfitt að átta sig á því hvert þetta stefnir. Mögulega er þróunin í Bandaríkjunum fyrirboði um það sem koma skal eða þá að Bandaríkin verða áfram eyland í sjálfbærniumræðunni.”

Bakslagið gegn ESG er ekki bundið við opinbera stefnu í rauðu ríkjunum svonefndu, þar sem repúblíkanar eru við völd, heldur teygir hún anga sína víða í fjármálakerfinu. Margir sjálfbærnisjóðir, þ.e.a.s. sjóðir sem taka miða af ESG-þáttum við fjárfestingar, fóru á mis við þær gengishækkanir sem urðu á bréfum jarðefnaeldsneytisfélaga og vopnaframleiðenda eftir innrásina í Úkraínu.

Tölur Morningstar um sjálfbærnisjóði í Bandaríkunum sýna 8,8 milljarða dala útflæði á fyrsta fjórðungi ársins. Sjálfbærnisjóðir, sem höfðu bólgnað út á árunum 2021 og 2022, skruppu þannig saman um 3 prósent á meðan heildareignir í öllum gerðum af sjóðum jukust um 1,4 prósent.

Evrópskir fjárfestar höfðu framan af sýnt meira viðnám. Á meðan bandarísku sjóðirnir láku mátti enn greina innflæði í evrópsku sjóðina á fyrsta fjórðungi samkvæmt fyrrnefndum tölum Morningstar en það bliknar þó í samanburði við innflæði í annars konar sjóði.

Allranýjustu tölurnar, sem breska fjármálafyrirtækið Barclays birti fyrir aprílmánuð, benda til þess að flóttinn úr ESG hafi náð til Evrópu en útflæði úr sjálfbærnisjóðum nam 1,9 milljörðum dala. Til samanburðar var 4,4 milljarða dala útflæði í Bandaríkjunum.

„Á vissan hátt endurspeglar bakslagið heilbrigða umræðu um það hvernig best sé að samþætta ESG við fyrirtækjarekstur og fjárfestingar,“ segir Bjarni.

„Ég er ekki í vafa um að fólkið sem tekur fjármagn út úr sjálfbærnisjóðum vilji sjá sjálfbæra framtíð en það hefur áhyggjur af ávöxtuninni og það er orðið ljóst að ESG bætir ekki upp fyrir veikleika í grunnrekstrinum.“

Þá eru jafnframt vísbendingar um að evrópsk fyrirtæki hafi tónað niður orðræðuna um sjálfbærni, að minnsta kosti hvað loftslagsmál varðar, ef marka má greiningu Bloomberg á uppgjörskynningum hundrað stærstu fyrirtækjanna. Loftslagsbreytingar og tengd hugtök birtust 671 sinni í kynningum evrópskra fyrirtækja á liðnum fjórðungi og markaði það 10 prósenta samdrátt milli ára. Aftur var þróunin þó mun sterkari í Bandaríkjunum þar sem loftslagstengdum hugtökum fækkaði um 60 prósent milli ára í uppgjörskynningum.

Bakslagið birtist einnig í niðurstöðum kosninga til Evrópuþingsins þar sem popúlískir hægri flokkar sóttu í sig veðrið á meðan umhverfissinnaðir flokkar á vinstri vængnum töpuðu þingsætum. Þetta gæti haft töluverða þýðingu fyrir stefnu Evrópusambandsins í loftslagsmálum, sem hefur nú þegar horfið frá markmiðinu um að helminga notkun skordýraeiturs fyrir árið 2040 til að koma til móts við evrópsku bændastéttina.

Umfjallanir