Sigurður Máni Helguson, framkvæmdastjóri Brauð og Co., ræðir við Hluthafann um það hvernig stjórnendur fyrirtækisins misstu og náðu aftur tökum á rekstrinum.
Þá greinir hann frá einni tiltekinni rekstrarákvörðun sem hefur verið „lykillinn að velgengni Brauð og Co.“ en síðasta ár var metár í rekstri fyrirtækisins.
Einhverjir lesendur kunna að hafa tekið eftir því að fréttabréfið birtist nú annað skiptið í röð á laugardegi en ekki fimmtudegi. Það er með ráðum gert. Á virkum dögum er stanslaust flæði frétta en um helgar er fátt um fínt lesefni um innlend viðskipti. Þetta er því ákveðin tilraun sem kannski gefst vel, en kannski ekki. Sjáum hvað setur.

SKE hafi teygt sig of langt í átt að atvinnulífinu frekar en hitt
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, hefur áhyggjur af því að eftirlitsstofnunin hafi hleypt of mörgum samrunum í gegn á síðustu árum og kallar eftir því að fyrirtækjasamtök útskúfi lögbrjótum til að auka fælingarmátt.
Þá hefur atvinnuvegaráðuneytið birt drög að frumvarpi sem gæfi eftirlitinu auknar heimildir, auknar tekjur og felur í sér hóflega hækkun veltumarka.

Er unnt að létta vaxtabyrði sveitarfélaga um milljarða?
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, segir að hægt sé að minnka bilið milli lánakjara ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar með þremur aðgerðum sem færa fyrirkomulagið nær því sem þekkist í helstu samanburðarríkjum.
„Þetta er tilflutningur á hverju einasta ári frá sveitarfélögum – þar með skattgreiðendum – til lífeyrisþega. Spurningin er: viljum við þennan tilflutning?“ spyr Óttar.

Kippur í samrunum lífeyrissjóða eftir hökt um nokkurt skeið
Á þessu ári hefur í þrígang verið tilkynnt um sameiningar lífeyrissjóða. Þannig heldur áfram sú samþjöppun sem hófst fyrir 45 árum en hefur staðið í stað um nokkurt skeið.