Beint í umfjöllun

Frjósemisvandinn fer vaxandi

Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur sett frjósemi á oddinn enn sem komið er. Það kemur þó sífellt betur í ljós hversu brýnt er að bregðast við öldrun þjóðarinnar.

Heilbrigður húsnæðismarkaður gæti verið til þess fallinn að sporna við minnkun fæðingartíðni. 

Öldrun þjóðarinnar, sem leiðir af því að fæðingartíðni hefur hríðfallið á síðustu árum, verður kostnaðarsöm hvernig sem á það er litið. Að óbreyttu mun þessi þróun setja verulegan þrýsting á ríkisfjármálin þegar fram í sækir og jafnframt eru vísbendingar um að öldrun dragi úr nýsköpun þjóða. Aðgerðir til að leysa þennan vanda með auknum stuðningi við fjölskyldur eru hins vegar dýrar og skila ekki mögulegum ávinningi fyrr en að áratugum liðnum.

Gylfi Magnússon, prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, segir að minnkandi fæðingartíðni hafi nokkrar augljósar afleiðingar í för með sér.

„Ef það eru fáir sem standa undir verðmætaframleiðslunni þá kemur það niður á hagvexti. Eftir því sem minna hlutfall þjóðarinnar er á vinnumarkaði, þeim mun minni verður verg landsframleiðsla á mann,“ segir Gylfi.

Aldursdreifingi á Íslandi var mjög hagstæð á seinni hluta tuttugustu aldar og að sögn Gylfa kann hún að skýra hluta af hagvexti tímabilsins. Stórar kynslóðir, sem fæddust á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum, komu inn á vinnumarkaðinn og stóðu undir tiltölulega fámennum hópi aldraðra.

Í þessum efnum hafa framtíðarhorfur versnað hratt. Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi fæddra barna á hverja konu og yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust.

„Til viðbótar er langlífi að aukast þannig að fleiri ná tíræðisaldri og það er ekki bara áskorun fyrir framleiðsluna sem slíka heldur fylgir því líka mikill kostnaður í heilbrigðiskerfinu og öldrunarþjónustu. Það segir sig sjálft að þegar margir eru aldraðir þarf marga til að sinna þeim, og það kostar,“ segir Gylfi.

Þessi þróun hefur veruleg áhrif á lífeyriskerfið. Staða flestra lífeyrissjóða er í dag þannig að iðgjöld eru meiri en útgreiðslur til sjóðfélaga, en því verður öfugt farið ef aldurspíramídanum verður leyft að snúast á hvolf. Minnkandi nýliðun hefur að óbreyttu í för með sér að sjóðirnir þurfi að ganga á eignir sínar til þess að standa undir útgreiðslum, og það þýðir að þeir þurfa að draga úr áhættutöku til að tryggja gjaldfærni.

Erfitt fyrir stjórnmálin að hreyfa við fæðingartíðni

Einfaldasta leiðin til að vega upp á móti minnkandi fæðingartíðni — að minnsta til skemmri tíma litið — er að flytja inn vinnuafl. Á síðasta ári var hreint streymi erlendra ríkisborgara til landsins, þ.e.a.s. aðfluttir umfram brottflutta, jákvætt um ríflega 10 þúsund manns og hefur aldrei verið meira á einu ári.

Vöxturinn hefur haldið áfram og á fyrri árshelmingi fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 2.740. Í þessu samhengi skiptir máli að fólkið sem hingað flytur er tiltölulega ungt, reiðubúið að vinna og fer ekki á ellilífeyri næstu áratugina.

Fáein lönd hafa markað pólitíska stefnu með því yfirlýsta markmiði að sporna við minnkandi frjósemi. Þegar Viktor Orbán komst aftur til valda í Ungverjalandi árið 2010 var fæðingartíðnin sú lægsta í Evrópu – einungis 1,26 börn á hverja konu. Síðan þá hefur stóraukin áhersla á stuðning við fjölskyldur híft fæðingartíðnina upp í 1,52 börn.

Ungverskar konur sem eiga fjögur eða fleiri eru undanþegnar tekjuskatti út ævina og jafnframt geta foreldrar fengið afskriftir á lánum þegar nýtt barn kemur í heiminn. En frá því að Ungverjaland náði að hífa fæðingartíðnina upp í 1,5 börn árið 2016, sem er enn langt undir því sem þarf til að viðhalda mannfjölda, hefur hún staðið í stað þrátt fyrir rausnarlegan stuðning.

„Ég held að það hljóti að vera skynsamlegt að gera hvoru tveggja en það er einfaldlega mun erfiðara fyrir hið opinbera að hafa áhrif á fæðingartíðni,“ segir Gylfi, spurður hvort ákjósanlegra sé að leysa vandann með innflutningi fólks eða pólitískri stefnu, sem miðar að því að auka frjósemi.

„Það sem gæti skipti máli er stuðningur við fjölskyldur, t.d. greitt aðgengi að leikskóla, og að koma húsnæðismarkaðinum í lag. Ef ungt fólk getur ekki komið þaki yfir höfuðið er ólíklegt að það leggist í barneignir. Það er ekki víst að slíkar aðgerðir dugi til en þær myndi líklega draga úr umfangi vandans. Þetta eru hins vegar gríðarlega dýrar aðgerðir sem skila ekki ávinningi fyrr en eftir 20-30 ár þannig að erfitt er að koma þeim í gegnum pólitíska kerfið.“

Enn sem komið er hefur enginn íslenskur stjórnmálaflokkur sett málið á oddinn. Þó að flokkar mæli fyrir aðgerðum sem gætu spornað við þessari þróun er aukin frjósemi aldrei yfirlýst markmið aðgerðanna.

Öldrun dregur úr nýsköpun

Hvort sem vandinn verður leystur með auknum stuðningi við fjölskyldur eða áframhaldandi innflutningi vinnuafls – eða blöndu beggja – kemur sífellt betur í ljós hversu brýnt er að leysa hann. Í nýlegri umfjöllun The Economist var til að mynda fjallað um það hvernig öldrun þjóða hefur áhrif á nýsköpun, sem er forsenda lífskjarasóknar til lengri tíma litið.

Ein rannsókn, sem breska tímaritið vitnaði í, sýndi að þegar miðgildi aldursdreifingar hækkaði um 3,5 ár minnkaði hlutfall frumkvöðla, þ.e. þeirra sem hefja fyrirtækjarekstur, um 2,5 prósentustig. Það er gríðarleg breyting í ljósi þess að frumkvöðlahlutfallið á heimsvísu var 6,1 prósent árið 2010. Jafnframt sýndi rannsóknin að ungt fólk í öldruðum samfélögum var ólíklegra til að stofna fyrirtæki en jafnaldrar þeirra í yngri samfélögum.

Þá er Japan nefnt sem dæmi um þjóð sem hefur glímt við lága fæðingartíðni um áratugaskeið og horfir nú upp á afleiðingarnar á nýsköpun. Árið 2010 voru Japanir leiðandi í 35 atvinnugreinum hvað varðar umsóknir um einkaleyfi en ellefu árum síðar voru þeir leiðandi í einungis þremur greinum. Til að mynda er framlag þeirra til tækniframfara á sviðum erfðatækni og bálkakeðja, sem áður var umtalsvert, orðið hverfandi lítið.

Umfjallanir