Beint í umfjöllun

Ríkinu og sveitarfélögum ber skylda til að hefja sérstakar viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna þar sem fjallað verður um fjárframlög til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs. Framlögin gætu mögulega numið nokkrum tugum milljarða króna en á sama tíma stendur hið opinbera frammi fyrir umtalsverðum útgjöldum vegna kjarasamninga og óvissunnar í Grindavík.

Málið má rekja aftur til ársins 2016 þegar lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði voru samræmd þannig að aldurstengd réttindaávinnsla varð meginreglan. Fram að því hafði jöfn réttindaávinnsla einkennt opinbera kerfið. Iðgjald 66 ára sjóðfélaga gaf jafn ríkuleg lífeyrisréttindi og iðgjald 20 ára sjóðfélaga þrátt fyrir að iðgjald hins yngri ætti eftir að safna ávöxtun í 47 ár.

„Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt [...] skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist“

Þetta var ósjálfbært fyrir LSR og Brú – einkum í ljósi aldurssamsetningar sjóðfélaga – og var til þess fallið að yngri kynslóðir niðurgreiddu lífeyrisréttindi eldri kynslóða. Aldurstengd réttindaávinnsla leiðrétti þetta misvægi þar sem kerfið gerir ráð fyrir því að iðgjöld skapi réttindi í samræmi við þann tíma sem þau ávaxtast í sjóðnum.

Sjóðfélagar sem voru virkir síðustu 12 mánuðina áður en breytingin tók gildi héldu hins vegar þeim lífeyrisréttindum sem þeir höfðu áunnið sér. Til þess að lífeyrissjóðirnir gætu staðið undir þessum réttindum komu því framlög upp á samtals 165 milljarða króna frá hinu opinbera, þar af 125 milljarðar frá ríkinu til LSR og 40 milljarðar frá sveitarfélögum til Brúar.

Megnið af framlögunum, alls 134 milljarðar króna, var svokallaður lífeyrisauki og myndaði hann svokallaða lífeyrisaukasjóði hjá LSR og Brú. Ólíkt því sem nafnið gefur til kynna eru þetta ekki afmarkaðir sjóðir, heldur reiknuð stærð í A-deildum lífeyrissjóðanna. Rúmir 11 milljarðar mynduðu hins vegar varúðarsjóði, sem voru afmarkaðir sjóðir og var þeim ætlað að styðja við lífeyrisaukasjóðina ef þörf krefði.

Lífeyrissjóðunum tveimur var óheimilt að ganga á höfuðstól varúðarsjóðanna nema að tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðanna, þ.e. mat á heildarskuldbindingum í samanburði við eignir, hefði verið neikvæð um meira en 10 prósent í samfellt fimm ár. Einungis þá mættu þeir leggja höfuðstólinn við eignir lífeyrisaukasjóðsins til að mæta skuldbindingum.

„Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist,“ segir í lögunum frá árinu 2016.

Þessi umfjöllun er eingöngu ætluð áskrifendum

Áskrift

Ertu nú þegar með reikning? Innskráning

Umfjallanir