Beint í umfjöllun

Séreign orðin bitbein á hagstjórnarsviðinu

Séreignarleiðin var framlengd með vísan til kjaraviðræðna en hugmyndafræðilegar rætur halda henni einnig í sessi. Seðlabankinn sér þetta úrræði frekar sem hagstjórnartæki til að skrúfa fyrir eftirspurn þegar þess er þörf.

Fjármálaráðuneytið vill halda séreignarleiðinni til streitu. Hluthafinn/T.Aladashvili

Séreignarleiðin, sem gerir heimilum kleift að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða inn á húsnæðislán, hefur valdið núningi á milli tveggja arma hagstjórnarinnar. Eftir að hafa kælt húsnæðismarkaðinn með fjórtán vaxtahækkunum er mat Seðlabanka Íslands að úrræðið sé „óheppilegt“ á tímum eftirspurnarþenslu en fjármálaráðuneytið hefur horft til þess að auka frelsi í ráðstöfun séreignarsparnaðar frekar en hitt.

„Aðgerðin er almennt til þess fallin að auka eftirspurn eftir húsnæði miðað við það að láta heimildirnar renna út. Þá hafa aðgerðirnar örvandi áhrif á almenna eftirspurn, bæði sakir auðlegðaráhrifa og vegna þess að greiðslubyrði lána ætti að minnka í takt við innborganir á höfuðstól,“ sagði meðal annars í umsögn frá Seðlabankanum um frumvarp fjármálaráðuneytisins.

Séreignarleiðin, sem hefur verið í gildi frá miðju ári 2014, átti að renna út í júní en með samþykkt á frumvarpi ráðuneytisins var úrræðið framlengt til loka árs 2024. Tillögu að framlengingu úrræðisins mátti rekja til stuðningsyfirlýsingar stjórnvalda frá desember 2022 sem sett var fram í kjölfar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

„Framlenging var því gott úrræði til að örva eftirspurn á tímum heimsfaraldurs en er fremur óheppilegt úrræði á tímum eftirspurnarþenslu“

Fullyrt var í greinargerð með frumvarpinu að framlenging kæmi ekki til með að hafa teljandi efnahagsleg áhrif umfram þau sem þegar kunna að hafa komið fram frá árinu 2014. En að mati Seðlabankans er mikilvægt að leggja mat á áhrif þess að hverfa frá fyrri áformum um að láta þessar örvandi aðgerðir renna út.

Þau áhrif eru líklega nokkur, meðal annars í ljósi þess, eins og bankinn bendir á, að það eru fremur tekjuhærri hópar sem hafa tök á að nýta sér skattafrádrátt til þess að bæta eignastöðu sína.

„Framlenging var því gott úrræði til að örva eftirspurn á tímum heimsfaraldurs en er fremur óheppilegt úrræði á tímum eftirspurnarþenslu,“ segir í umsögn bankans.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECDC, tók síðan undir sjónarmið Seðlabankans í sumar þegar stofnunin skilaði nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál. Ein af fjölmörgum tillögum OECD var sú að „afnema eða takmarka enn frekar almennar heimildir til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til greiðslu húsnæðislána.“

Heildarumfang úrræðanna nemur um 107 milljörðum króna frá því að þau tóku gildi um mitt ár 2014. Af þeirri fjárhæð hafa um 5 milljarðar króna verið greiddir út vegna útborgunar við kaup á fasteign en yfirgnæfandi meiri hluti, um 102 milljarðar, hafa verið greiddir inn á höfuðstól lána á tímabilinu.

„Auðvitað hefur þetta þau áhrif að fólk eignast meira í húsnæðinu, hefur þar að leiðandi meira á milli handanna og er líklegra til að stækka við sig,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu Íslandsbanka, og vísar þar sérstaklega til greiðslu séreignarsparnaðar inn á lán.

„Að því leyti færir þetta til eftirspurn á húsnæðismarkaði, úr minni eignum yfir í stærri, og hefur þar af leiðandi áhrif til lengri tíma litið en ég er ekki viss um að það yrðu veruleg skammtímaáhrif af því að leyfa úrræðinu að renna út.“

Á meðan séreignarleiðin hefur verið í gildi hefur húsnæðismarkaðurinn gengið í gegnum tvö ýkt verðhækkunarskeið, fyrst árið 2017 aftur árið 2022, en í báðum tilfellum fór árshækkunin vel yfir 20 prósent. Snarpur viðsnúningur eftir vaxtahækkanir Seðlabankans endurspeglast hins vegar í því að árstakturinn mælist nú einungis 3,8 prósent.

„Við höfum meiri áhyggjur af íbúðamarkaðinum eftir tvö til þrjú ár. Miðað við öll þau gögn sem við höfum er ekki verið að byggja nóg og við munum sjá afleiðingar þess eftir þrjú ár þegar vextir eru lægri,“ segir Bergþóra.

„Og það má spyrja sig, sérstaklega þegar húsnæðismarkaðurinn er eftirspurnardrifinn, hvort þetta séu skynsamleg úrræði.“

Hart barist gegn breytingum

Þó að séreignarleiðin hafi verið framlengd með vísan til síðustu kjaraviðræðna er einnig hugmyndafræðileg hlið á málinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra studdi úrræðið frá upphafi og hefur nýlega boðað lagasetning sem miðar að því að auka heimildir vörsluaðila til að bjóða „persónulegt val um fjárfestingastefnu séreignarsparnaðar“.

Ákall Seðlabankans fellur í grýttan jarðveg hjá Sjálfstæðisflokknum að sögn þingmannsins Óla Björns Kárasonar, sem átti stóran þátt í að koma málinu á dagskrá á sínum tíma.

„Ég ætla að fá að fullyrða að það verður hart barist gegn því að breyta þessum úrræðum, sem hafa reynst vel,“ segir Óli Björn og hann leggur áherslu á að undirliggjandi vandi húsnæðismarkaðarins sé framboðshliðin.

„Yfirleitt er ég sammála Ásgeiri Jónssyni og Seðlabankanum en þarna skilur á milli himinn og haf. Ég lít þannig á að þetta sé einhver fljótfærni sem þeir hljóta að endurskoða í fyllingu tímans.“

Heimildin til að nýta séreignarsparnað til eignamyndunar í húsnæði endurspeglar áherslu flokksins á séreignarstefnuna. Óli Björn lýsir stefnunni í stuttu máli þannig að tryggja þurfi möguleika fólks á fjárhagslegu sjálfstæði, hvort sem það er með íbúðakaupum, fjárfestingu í atvinnulífinu eða öðrum hætti.

„Hluti af fjárhagslegu sjálfstæði er séreignarsparnaðurinn og réttur fólks til að nýta hann til að byggja upp eignir í samræmi við þarfir viðkomandi. Þær geta verið mismunandi og koma hvorki Seðlabankanum né OECD við.“

Þá liggur fyrir ályktun frá síðasta landsfundi flokksins sem hljóðar þannig að festa þurfi úrræðin í sessi og gæta þess að fjárhæðir fylgi verðlagsþróun. Sömu viðmiðunarfjárhæðir, þ.e.a.s. 500 þúsund á ári fyrir einstaklinga og 750 þúsund á ári fyrir hjón, hafa verið í gildi frá upphafi og því hefur vægið farið minnkandi með árunum.

Sjóðirnir tækju við sparnaðinum án vandkvæða

Ef séreignarleiðinni verður leyft að renna út í lok næsta árs mun sparnaðurinn, sem áður var nýttur til greiðslu inn á lán, verða eftir hjá lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar.

Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins, telur ekki að sjóðirnir muni lenda í miklum vandræðum við ráðstöfun fjármuna í fjárfestingar, og að áhrifin á aðra innlenda eignamarkaði, svo sem hlutabréfamarkaðinn, verði óveruleg. Hann tekur dæmi um síðasta ár en samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands námu greiðslur séreignar inn á lán um 19,8 milljörðum króna á árinu.

Hluthafinn lítur dagsins ljós
Hluthafinn er nýr áskriftarmiðill — stofnaður í ágúst 2023 — sem fjallar með ýtarlegum hætti um íslenskt viðskiptalíf og þróun efnahagsmála.

„Með grófri flokkun má skipta fjárfestingum séreignarsparnaðar í blönduð söfn (innlend og erlend hlutabréf, og skuldabréf), innlánasöfn og erlenda vörsluaðila og leiðir sem fjárfesta einungis erlendis. Ef við gefum okkur að 70 prósentum af blönduðu söfnunum sé fjárfest hér á landi, þá eru þetta um 8 milljarðar króna sem þurfa að fara í vinnu til viðbótar við önnur hrein iðgjöld,“ segir Ólafur Páll.

Því megi gróflega áætla, þegar tekið er mið af iðgjöldum og útgreiðslum síðasta árs, að fjárfestingaþörf séreignardeilda myndi aukast um 10 prósent og fjárfestingaþörf í öllu kerfinu um 5 prósent. Ef tekið yrði tillit til arðgreiðslna og endurgreiðslna skuldabréfa lækkar þetta hlutfall enn frekar.

„Svo má velta fyrir sér hversu stórt hlutfall haldi áfram í séreignarsparnaði ef þetta úrræði hættir þannig að þetta gæti verið eitthvað lægri upphæð sem þarf að leita fjárfestingar,“ bætir hann við.

Skynsamlegt að nýta aukið svigrúm til sparnaðar

Síðustu tvö ár hefur um 1 milljarður verið greiddur inn á höfuðstól fasteignalána hjá 20 þúsundum einstaklinga í hverjum mánuði. Vinsældir séreignarleiðarinnar má einkum rekja til skattfrelsisins, sem gerir það að verkum að líklega er hagkvæmt fyrir flesta að nýta úrræðið í samanburði við að nýta það ekki.

„Ég hef hins vega brýnt fyrir fólki að leggja fyrir til efri áranna sem nemur svigrúminu sem skapast vegna þessa úrræðis,“ segir Björn Berg Gunnarsson, sjálfstætt starfandi fjármálaráðgjafi og fyrirlesari.

„Fólk greiðir aukalega inn á lánið sitt og lækkar með því greiðslubyrði til lengri tíma litið en í stað þess að nýta svigrúmið í aukna neyslu er mikilvægt að muna að séreignarsparnaður getur reynst mjög dýrmætur þegar við verðum eldri. Því er skynsamlegt að bæta sér upp að séreignin hafi verið nýtt með þessum hætti,“ bætir hann við.

Önnur leið til að nýta þetta úrræði sem best, útskýrir Björn, er að nýta það svigrúm sem skapast til að stytta lánið. „Þannig hröðum við eignamyndun, sem hægt væri að líta á sem lífeyri í sjálfu sér, að því gefnu að fólk minnki við sig seinna meir.“

Umfjallanir