Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, segir óumdeilt að evrópska laga- og regluverkið um fjármálastarfsemi sé orðið mjög viðamikið og flókið. Nú sé pendúllinn byrjaður að sveiflast til baka og það geti skilað sér í minna flækjustigi án þess þó að slegið sé endilega af kröfum til fjármálastofnana.
„Við finnum fyrir því að regluverk á fjármálamarkaði hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár en nýrri löggjöf fylgja nýjar kröfur til eftirlitsskyldra aðila og um leið til eftirlitsstofnana. Og það er ekki mikið sem dettur út á móti,“ segir Björk í viðtali við Hluthafann.
Eftir fjármálahrunið 2008 hefur Evrópusambandið gefið út fjölda tilskipana og reglugerða sem varða fjármálakerfið og íslenskum stjórnvöldum ber að innleiða á grundvelli EES-samningsins. Í sameiginlegu bréfi sem yfirmenn norrænna eftirlitsstofnana sendu á þrjár stærstu stofnanirnar sem hafa eftirlit með fjármálamörkuðum í Evrópu; EBA, EIOPA og ESMA, var því sjónarmiði komið á framfæri að umbreyta þyrfti fjármálaregluverkinu. Bréfið var sent í nóvember, skömmu fyrir skipun á nýrri framkvæmdastjórn hjá Evrópusambandinu.
„Nú þegar nýtt skipunartímabil tekur við teljum við nauðsynlegt að umbreyta lagabálknum á þann veg að hann verði einfaldari,“ sagði í bréfi norrænu eftirlitsstjóranna. Í því skyni þarf að forðast „tikka-í-boxin“ nálgun við fjármálaeftirlit en þess í stað leggja meiri áherslu á áhættumiðað eftirlit.
„Regluverkið ætti að vera einfaldara, taka betur mið af umfangi og leggja eins litlar byrðar og mögulegt er, ásamt því að renna stoðum undir fjármálastöðugleika og trausta vernd fyrir neytendur og fjárfesta.“
Björk segir að bréfið hafi fengið góðar undirtektir hjá evrópsku eftirlitsstofnunum sem það var stílað á, og eins hjá fulltrúum annarra fjármálaeftirlita í Evrópu.
„Það er, að ég held, óumdeilt að evrópska laga- og regluverkið um fjármálastarfsemi sé orðið mjög viðamikið og flókið, og aukin umræða um að leita leiða til að gera það skýrara og aðgengilegra.“
„Nú er pendúllinn hvað evrópulöggjöfina varðar að sveiflast til baka, ef svo má að orði komast. Áhersla er á að minnka flækjustigið án þess þó að slá endilega af kröfunum, auk þess að beita hlutfallsreglu í meiri mæli en hingað til þannig að kröfur til eftirlitsskyldra aðila taki meira mið af stærð, eðli og áhættu aðila.“