Seðlabankinn hefur uppfært stefnu sína til að endurspegla viðleitni til að einfalda framkvæmd fjármálaeftirlits. Bankinn segist nú þegar hafa minnkað skýrsluskil fjármálastofnana og leitar fleiri leiða í samstarfi við fjármálaráðuneytið.
Í ritinu Stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti, sem Seðlabankinn birti á miðvikudaginn, er þess getið að bankinn hafi uppfært stefnu sína í byrun árs. Er nú mælt fyrir um að markvisst skuli unnið að einföldun við framkvæmd fjármálaeftirlits og leitað leiða til aukinnar skilvirkni án þess að það veiki eftirlit eða drægi úr kröfum.
Bankinn segir að nú þegar sé búið að takat skref til að einfalda framkvæmd eftirlits. Þannig hefur verið felld niður skylda lánastofnana til að skila ársfjórðungslegri lánasafnsskýrslu, sem og skyldan til að skila árlegu stöðuyfirliti vörslufjárreiknings innheimtuaðila. Til viðbótar hafa ýmis leiðbeinandi tilmæli til fjármálafyrirtækja verkað í sömu átt, að sögn Seðlabankans.
„Áfram verður unnið að frekari einföldun við framkvæmd fjármálaeftirlits en einnig á því regluverki sem er á forræði Seðlabankans,“ segir í áðurnefndu riti.

„Í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið leitar Seðlabankinn enn fremur leiða til þess að einfalda og draga úr flækjustigi þess regluverks sem um fjármálamarkaðinn gildir.“
Á undanförnum árum hefur þetta viðhorf komið fram í máli stjórnenda Seðlabankans, meðal annars í viðtali Hluthafans Björk Sigurgísladóttur, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, fyrir ári síðan. Björk sagði óumdeilt að evrópska laga- og regluverkið um fjármálastarfsemi væri orðið mjög viðamikið og flókið en nú væri pendúllinn byrjaður að sveiflast til baka.
„Við finnum fyrir því að regluverk á fjármálamarkaði hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár en nýrri löggjöf fylgja nýjar kröfur til eftirlitsskyldra aðila og um leið til eftirlitsstofnana. Og það er ekki mikið sem dettur út á móti,“ sagði Björk.
