Beint í umfjöllun

Óskráða þakið og stíflan hjá erlendu framtakssjóðunum

Eign íslenskra lífeyrissjóða í erlendum framtakssjóðum hefur vaxið verulega á síðustu árum. Ef tveir af stærstu sjóðum landsins, LSR og Gildi, eru teknir fyrir nam samanlögð eign þeirra 63 milljörðum í lok árs 2019 en fjórum árum síðar hafði hún þrefaldast upp í 190 milljarða. Það er af góðri ástæðu eins og rakið var á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs í apríl.

Erlendu framtakssjóðirnir eru langsamlega dýrasti eignaflokkurinn þegar litið er til þóknana. Gildi greiddi meira en tvo milljarða króna í þóknanir til slíkra sjóða á síðasta ári en yfir sama tímabil voru þóknanir vegna skráðra erlendra hlutabréfa í kringum 800 milljónir þrátt fyrir að þau séu töluvert stærri hluti af eignasafninu. Það sem hefur réttlætt þessar háu þóknanir, útskýrði Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis, er ávöxtunin sem framtakssjóðirnir skila umfram skráð hlutabréf.

„Þó að þeir séu dýrir þá hafa þeir skilað ávöxtun sem hefur verið metin það góð að það sé vel þess virði að vera í þessari starfsemi til lengri tíma. Að jafnaði hafa þessir sjóðir verið að skila 1-2,5 prósentum yfir því sem skráð hlutabréf hafa verið að skila sjóðnum, að teknu tilliti til kostnaðar.“

Líkanið sem framtakssjóðir vinna eftir snýst um að safna fjármagni fyrir yfirtökur á fyrirtækjum, selja þau nokkrum árum síðar — ýmist með beinni sölu eða skráningu á markað — og loks endurgreiða þeim sem höfðu lagt sjóðnum til fjármagn. Síðan er leitað til fjárfesta á ný til að endurtaka leikinn.

Vandinn sem framtakssjóðir hafa glímt við síðustu misserin er sá að skráningum á markað fækkaði umtalsvert í takt við vaxtahækkanir og jafnframt hafa háir vextir rekið fleyg á milli verðvæntinga kaupenda og seljenda. Með öðrum orðum hefur gengið brösuglega að losa um eignir og og skila fjármunum til fjárfesta.

Á síðasta aldarfjórðungi hafa árlegar endurgreiðslur til fjárfesta numið að jafnaði 25 prósentum af heildareignum framtakssjóðanna samkvæmt greiningu fjárfestingabankans Raymond James. Í fyrra var hlutfallið ekki nema 11,2 prósent og hafði ekki verið lægra frá árinu 2009.

„Við höfum fundið fyrir hægari endurgreiðslum en við væntum. Markaðsaðstæður eru þannig að verr hefur gengið hjá mörgum sjóðum að innleysa eignir og skila áskrifendum afrakstrinum,“ segir Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks.

Þessi umfjöllun er eingöngu ætluð áskrifendum

Áskrift

Ertu nú þegar með reikning? Innskráning

Umfjallanir