Beint í umfjöllun

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja á meðal fjárfesta í Unbroken

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er á meðal þeirra fjárfesta sem keyptu breytanleg skuldabréf, sem sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken gaf út í tengslum við risasamning í hjólreiðaheiminum.

Unbroken gerði samstarfssamning við hjólreiðaliðið Lidl-Trek, sem er „stærsti samningur af þessu tagi sem íslenskt vörumerki hefur gert“ að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Samn­ing­ur­inn er til þriggja ára og met­inn á vel á ann­an millj­arð króna. 

Í tengslum við samninginn hefur Zym Ice, móðurfélag Unbroken, gengið frá útgáfu á breytanlegu skuldabréfi fyrir 800 milljónir króna. Fjárfestarnir sem keyptu bréfin eru IS HAF fjárfestingar, sem er í stýringu Íslandssjóða, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og aðrir einkafjárfestar.

Unbroken byggir upp vörumerki í „heimsklassa“ með risasamningi við Lidl-Trek
Sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken hefur gert samstarfssamning við hjólreiðaliðið Lidl-Trek, sem er „stærsti samningur af þessu tagi sem íslenskt vörumerki hefur gert“ að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Samningurinn þýðir að vörumerkinu bregður fyrir í keppni sem nær til meira en 3 milljarða áhorfenda um allan heim og jafnframt verður Unbroken sett í víðtækt

Eftir sem áður er Útgerðarfélag Reykjavíkur stærsti hluthafinn með 40 prósent en félagið fjárfesti í Unbroken árið 2020. Runólfur Guðmundsson, framkvæmdarstjóri ÚR, er stjórnarformaður Zym Ice.

Unbroken framleiðir samnefnt fæðubótarefni í formi freyðitaflna, sem gefur hraða vöðvanæringu úr niðurbrotnu laxapróteini og er byggt á áralöngum rannsóknum og þróunarvinnu. 

Notkunargildi Unbroken nær þvert yfir þær íþróttagreinar þar sem úthald skiptir mestu máli og nái fyrirtækið að byggja upp sterkt vörumerki í hjólreiðaheiminum kann það að verka sem stökkpallur yfir í aðrar greinar.

„Það sem við heyrum frá þeim læknum sem við höfum unnið með er að ef þú nærð fótfestu í hjólreiðaheiminum þá opnast dyr að öðrum íþróttum. Fótboltalið, sem dæmi, horfa til þess hvað hjólreiðafólk gerir til að bæta endurheimt og auka úthald,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Unbroken, í viðtali við Hluthafann.

„Þess vegna þurfum við að nota þessa aðferðafræði: að búa til „authority“ í hjólreiðunum. Við erum strax farin að fá fyrirspurnir frá heimsklassahlaupurum sem keppa í Iron man og Triathalon. Þetta er farið að spyrjast út.“

Umfjallanir