Beint í umfjöllun

Í vikunni stóð Verkfræðingafélagið fyrir málþingi um gervigreind þar sem frábærir fyrirlesarar lýstu sinni reynslu af notkun gervigreindar.  Í lok málþingsins sátu fyrirlesarar fyrir svörum gesta úr sal.

Ein áhugaverð spurning úr sal sneri að því hvort betra væri að skrifa algrím frá grunni til að leysa flókin verkefni eða beita gervigreind til að fá fram niðurstöðu. Hjálmar Gíslason frumkvöðull benti á að gervigreind væri ónákvæm og ætti t.d. erfitt með að velja bestu leið frá A til B, eins og leiðsögutæki gera, með algrím. Reyndar benti Hjálmar á það að gervigreind væri fremur óáreiðanleg og virtist standa sig mun betur í sköpun en í rökhugsun.

Þá bar einnig á góma sú neikvæða þróun sem tilurð ChatGPT hefur á vinnu forritarar sem hjálpa hverjir öðrum við lausn tæknilegra vandamála á spjallborðum. Forritarar spyrja nú gervigreindina um lausn á tæknilegum vandamálum, sem er byggð á eldri svörum af spjallborðum. Hin raunverulega greind, sem gervigreindin byggir allt á, er að mestu hliðsett á meðan.

Grunngögnin sem gervigreind byggir ár verða því í vaxandi mæli efni af interneti sem kemur frá gervigreindinni sjálfri. Nassim Taleb lýsti þessu þannig á Twitter: „Gervigreind er eins og sleikibrjóstsykur sem reynir að sleikja sjálfan sig“.

Það er mikið hugarfóður fyrir fjárfesta að hækkun S&P 500 vísitölunnar á þessu ári byggir miklu leyti á væntingum til gervigreindar.

Umfjallanir