Samnefnari þeirra drykkjarvörumerkja sem hafa náð árangri á alþjóðavísu er sá að stórir erlendir fjárfestar komi inn í myndina, hvort sem það er í formi beinnar fjárfestingar eða dreifingarsamninga við drykkjarvöruframleiðendur eins og PepsiCo, sem geta á seinni stigum breyst í eignarhlut.

Íslenski drykkurinn Collab er langt frá risasamningum enda er útrásin til Danmerkur tiltölulega nýhafin og enginn hægðarleikur að ryðja sér til rúms á nýjum mörkuðum. Dreifingin hefur þó gengið vel og nýleg viðskipti sýna að hlutirnir geta breyst hratt ef vel er haldið á spöðunum.

Hluthafar sigldu Fáfni Offshore „örugglega í höfn“
„Ávöxtunarlega séð var þetta allt í lagi – ekkert til að hrópa húrra fyrir. En með hliðsjón af því að þarna var skrapaður botninn lengi þá er gott að geta skilið vel við,“ segir Bjarni Ármannsson, eigandi fjárfestingafélagsins Sjávarsýnar.
Bjarni var á meðal þeirra fjárfesta sem tóku þátt í því að fjármagna Fáfni Offshore, sem var stofnað til að gera út dýr og sérhæfð skip til þjónustu við olíuiðnaðinn.
„Þegar maður nefnir Fáfni halda sumir að fyrirtækið hafi farið á hausinn en raunin er sú að hluthafarnir héldu þétt utan um fjárfestinguna og sigldu henni örugglega í höfn. Þrettán ára vegferð er að ljúka – tiltölulega farsællega.“

Auknar kröfur þenja út Auðkenni eftir yfirtöku ríkisins
Rekstur Auðkennis, sem rekur rafræna auðkenningarþjónustu, hefur umbreyst frá því að ríkissjóður tók fyrirtækið yfir árið 2022. Tekjurnar hafa vaxið hratt en útgjöldin mun hraðar í takt við auknar lögbundnar kröfur á þessu sviði og fjárfestingar í tækniþróun.
Rekstrargjöld námu 933 milljónum í fyrra og hafa meira en tvöfaldast frá árinu 2022 þegar þau námu 420 milljónum. Þyngst vegur aukinn launakostnaður en á þessu tveggja ára tímabili þrefaldaðist fjöldi stöðugilda – eða svo gott sem – úr tæplega 11 og upp í tæplega 30.

Nýjar reglur setja þrýsting á vaxtakjör framkvæmdalána
Innleiðing á svokölluðum CRR-reglum hefur í för með sér að bankar þurfa að binda töluvert meira eigið fé vegna framkvæmdalána en þeir gera í dag og er fyrirséð að nýju reglurnar setji þrýsting á vaxtakjörin.
Arion banki og Íslandsbanki birtu uppgjör í síðustu viku og fjölluðu báðir bankar um það hvernig CRR mun hafa áhrif á eiginfjárbindingu þegar reglurnar verða innleiddar á þessu ári. Þær snúast í grófum dráttum um það hvernig reikna skuli þann áhættugrunn sem lögbundnar eiginfjárkröfur miðast við.

Eaton Vance heldur áfram að byggja upp stöðu í Arion banka
Bandaríska eignastýringarfélagið Eaton Vance hefur haldið áfram að byggja upp stöðu í Arion banka og fer nú með 3 milljarða hlut í bankanum eftir nýleg viðskipti.
Hluthafinn greindi frá því um miðjan apríl að Eaton Vance hefði á skömmum tíma tvöfaldað vægi íslenskra hlutabréfa í þeim tveimur sjóðum sem eiga mest undir íslenska markaðinum.
Hvað Arion banka varðar áttu sjóðirnir alls 3,6 milljónir hluta í lok október og þegar komið var fram í lok janúar á þessu ári var eignin orðin í 6,6 milljón hluta. Þá birtist bandaríska félagið á listanum yfir stærstu hluthafa bankans um miðjan apríl með 16,1 milljón hluta.

Þegar Arion banki birti síðan uppfærðan hluthafalista í lok síðustu viku kom í ljós að Eaton Vance á nú 19,1 milljón hluta, sem jafngildir 3 milljarða króna eign í bankanum og samsvarar 1,3 prósentum af hlutafé.
Þó að sjóðirnir tveir, Global Macro Absolute Return Advantage og Global Macro Portfolio, hafi tvöfaldað vægi íslenskra hlutabréfa hafa þeir áður verið umsvifameiri hér á landi. Þeir byrjuðu að kaupa íslensk bréf síðla árs 2015 og voru komnir með 25 milljarða króna stöðu um mitt ár 2018 áður en þeir seldu sig niður.