Efnahagsþróunin sem hefur átt sér stað frá fjármálahruninu, og birtist meðal annars í fjölgun útflutningsgreina og sterkari gjaldmiðli, hefur aukið áhugann ytra á fjárfestingarkostum á Íslandi. Viðtökurnar sem erlendir fjárfestar fá í stjórnkerfinu hafa þó lítið batnað og standa aukinni erlendri fjárfestingu fyrir þrifum.
Þetta segir Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri MAR Advisors, sem hefur komið að stórum fjármögnunarverkefnum í orkuiðnaði, sjávarútvegi og innviðageiranum.
„Áhugi erlendra fjárfesta á tækifærum á Íslandi hefur aukist en okkur hefur ekki farið mikið fram í því að taka á móti þeim. Það er þessi ófyrirsjáanleiki – það er ekki skýrt hvað menn vilja.“