Risasamningur Unbroken, sem framleiðir vöðvanæringu úr niðurbrotnu laxapróteini, við hjólreiðaliðið Lidl-Trek getur verkað sem stökkpallur yfir í aðrar íþróttagreinar. Fyrirtækið, sem er í eigu íslenskra fjárfesta, færist því stóru skrefi nær markmiðinu um að byggja upp heimsklassavörumerki.
„Það sem við heyrum frá þeim læknum sem við höfum unnið með er að ef þú nærð fótfestu í hjólreiðaheiminum þá opnast dyr að öðrum íþróttum. Fótboltalið, sem dæmi, horfa til þess hvað hjólreiðafólk gerir til að bæta endurheimt og auka úthald,“ segir framkvæmdastjórinn í samtali við Hluthafann.

SKEL og ESA takast á – „Þetta mál á ekki heima á Evrópustiginu“
Málflutningur í máli SKEL fjárfestingafélags gegn ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hófst fyrir EFTA-dómstólnum í Brussel í vikunni. Íslenska fjárfestingafélagið segir ESA ekki skilja íslenska apóteksmarkaðinn, að málið eigi ekki heima á þessu stigi vegna þess hversu staðbundið það er og að stofnunin hafi ekki búið yfir fullnægjandi vísbendingum til að framkvæma húsleit.

Hæfniskekkjan sem háir hagkerfinu
Tvær alþjóðastofnanir hafa varað við því hvernig hæfniskekkja á íslenskum vinnumarkaði veldur skorti á sérhæfðu vinnuafli og heldur aftur af framleiðslugetu hagkerfisins. Báðar stofnanir hafa lagt til að ferlið í kringum viðurkenningar á menntun og hæfni innflytjenda verði einfaldað.
„Ísland getur gert betur þegar kemur að því að færa sér kunnáttu innflytjenda í nyt,“ segir í skýrslu OECD. Ríflega 40 prósent af erlendu vinnuafli eru ofmenntuð í starfi á meðan hið sama gildir ekki um nema 10 prósent af innfæddum launþegum.
Vakin er athygli á því að í seinni hluta júlí og fram yfir verslunarmannahelgi verður Hluthafinn í dvala vegna sumarfría.