Beint í umfjöllun

Veðmál sem kreistu út meiri ávöxtun á markaði

Hluthafinn leitaði til þeirra sjóðstjóra, sem fjárfesta í innlendum verðbréfum og náðu bestu ávöxtuninni á árinu 2023, til að fara yfir þróun eignamarkaða á liðnu ári og horfurnar á hinu nýja.

Ljósmynd/Kauphöllin

Horft í baksýnisspegilinn hefði verið hyggilegt í byrjun árs 2023 að velja þá innlendu verðbréfasjóði sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum og skiluðu sumir hverjir yfir 20 prósenta ávöxtun. Hluthafinn leitaði hins vegar til þeirra sjóðstjóra, sem fjárfesta í innlendum verðbréfum og náðu bestu ávöxtuninni á árinu 2023, til að fara yfir þróun eignamarkaða á liðnu ári og horfurnar á hinu nýja.

Þegar litið er til ávöxtunar innlendra skuldabréfasjóða voru sjóðir á vegum Kviku eignastýringar í efsta og þriðja sæti samkvæmt heimasíðu Keldunnar. Andri Már Rúnarssonar, sem stýrir skuldabréfasjóðunum, segir að árið hafi verið sveiflukennt. 

„Árið 2023 var mjög viðburðaríkt á skuldabréfamörkuðum, bæði hér heima og erlendis. Í byrjun árs var vaxandi verðbólga í kjölfar kjarasamninga, svo féllu Silicon Valley Bank og Credit Suisse og áður en árið var hálfnað var Seðlabankinn búinn að hækka vexti um 275 punkta,“ segir Andri Már.

„Um miðjan seinni helming var nánast búið að þurrka út ávöxtun ársins en þetta snerist við á síðustu tveimur mánuðum ársins. Þá varð ákveðin stefnubreytingu í heimshagkerfinu þar sem verðbólga fór minnkandi og vaxtavæntingar sömuleiðis.“

Skuldabréfamarkaðurinn snýst að miklu leyti um þessa tvo þætti; verðbólgu og vexti. Væntingar til þess hvernig þeir munu þróast endurspeglast í ávöxtunarkröfu bréfanna og verðbólguálaginu,  þ.e.a.s. vaxtamun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa.

„Við höfum verið bjartsýnni á verðbólguþróun en markaðurinn og sáum tækifæri á árinu í óverðtryggðum bréfum þegar verðbólguálagið fór hæst upp í 6 prósent til 5 ára,“ segir Andri Már. 

„Verðbólguálagið náði hámarki í mars á síðasta ári þegar auknum launakostnaði var velt út í verðlagið og greinilegt að nýundirritaðir kjarasamningar voru hagkerfinu mjög þungir. Þá missti markaðurinn trú á því að verðbólgan kæmi niður í bráð og verðbólguvæntingar ruku upp. Við nýttum tækifærið og keyptum óverðtryggð skuldabréf á þessu háa álagi sem hefur síðan komið niður.“

Stærsti áhrifaþátturinn á þessu ári eru kjaraviðræðurnar, bæði þær sem standa nú yfir milli ASÍ og SA, og viðræðurnar við opinbera starfsmenn sem eru fram undan. Á almenna markaðinum hefur verið rætt um flata 26 þúsunda króna upp­hafs­hækk­un og að kjarasamningarnir verði til næstu þriggja eða jafnvel fimm ára.

„Það var góður tónn í aðilum vinnumarkaðarins í kringum jólin og áramót, og raun má segja að það sé gjörbreytt stemming miðað við það sem við höfum þurft að venjast. Mér sýnist að það sé vilji til að ganga almennilega frá þessum samningum og síðan er spurning hversu hratt Seðlabankinn mun bregðast við,“ segir Andri Már.

„Það má segja að það séu mjög góð tækifæri á markaðinum vegna þess að eftir því sem ávöxtunarkröfur skuldabréfa hækka þá aukast ávöxtunarmöguleikar framtíðarinnar.“

Svartsýni á stýrivexti kom sér vel

Lausafjársjóður Akta skilaði ávöxtun upp á nærri 8,5 prósent samkvæmt Keldunni en það var hæsta ávöxtunin á meðal þeirra níu skammtímasjóða sem voru með starfsemi á öllu árinu. Sjóðstjórinn Fannar Örn Arnarsson segir að árið 2023 hafi verið hagstætt umhverfi fyrir lausafjársjóði enda stýrivextir háir í sögulegu samhengi. 

„Í þess konar umhverfi er mikill fórnarkostnaður fólginn í því að fara í áhættufjárfestingar og því hagstætt að setja fjármagnið í skammtímasjóði þangað til verðbólguóvissan gengur yfir,“ segir Fannar Örn. 

Í erlendum viðskiptamiðlum hefur verið fjallað um gríðarlegt innflæði í skammtímasjóði, einkum í Bandaríkjunum, á síðasta ári en engin merki eru um sambærilega þróun á Íslandi. Flæðið virðist raunar hafa verið nettó neikvætt um 10 milljarða króna á tímabilinu janúar til nóvember samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands. 

„Í Bandaríkjunum bjóða bankar mjög lága vexti á innlánsreikningum þannig að vaxtamunurinn við lausafjársjóði hefur verið töluverður. Á Íslandi hefur hins vegar verið hörð samkeppni um innlán, sérstaklega eftir innkomu Auðar, og vaxtamunurinn milli innlánsreikninga og lausafjársjóða hefur því ekki verið eins mikill. Mikið af því fjármagni sem var tekið út úr hlutabréfasjóðum eða skuldabréfasjóðum leitaði því ekki í lausafjársjóði heldur beint á innlánsreikninga,“ segir Fannar Örn. 

Í liðlega tvö ár – allt frá því að Seðlabankinn byrjaði vaxtahækkunarferli vorið 2021 og fram á mitt ár 2023 – skiluðu innlánsreikningar betri ávöxtun en lausafjársjóðir. Innlánsvextir eru breytilegir en í lausafjársjóðunum má finna eignir sem bera fasta vexti til skamms tíma og því getur tekið nokkra mánuði fyrir lausafjársjóði að ná innlánsreikningum ef að vaxtahækkanir eru umfram það sem skuldabréfamarkaðurinn hefur gert ráð fyrir.

Frá síðasta sumri hefur hægt og rólega dregið úr verðbólguóvissu og skuldabréfamarkaðinum hefur tekist betur að áætla vænta stýrivexti. Samhliða því hafa lausafjársjóðir aftur tekið fram úr innlánsreikningum.

„Við vorum ef til vill svartsýnni á stýrivextina en aðrir og vildum því ekki læsa inni fastvaxtakjör sem okkur fannst ekki vera hagstæð út frá okkar stýrivaxtavæntingum. Við vorum því með minna hlutfall af sjóðnum í föstum vöxtum,“ segir Fannar Örn, spurður hver helsta ástæðan sé fyrir því að sjóður Akta hafi náð að kreista út meiri ávöxtun en aðrir lausafjársjóðir.

Óvenjumiklar arðgreiðslur komu sjóði Stefnis í efsta sætið

Arðgreiðslusjóður Stefnis var efstur á lista Keldunnar yfir ávöxtun sjóða sem fjárfesta í innlendum hlutabréfum, þ.e.a.s. ef leiðrétt er fyrir arðgreiðslum. Með því að leiðrétta fyrir arðgreiðslum, eins og gert er á Keldunni, er tekið með í reikninginn að skírteinishafar fengu arðgreiðslu útgreidda um mitt síðasta ár á meðan aðrir hlutabréfasjóðir ráðstöfuðu arðinum aftur út á markaðinn.

Arðgreiðslur félaga í eigu sjóðsins voru óvenjumiklar þetta árið og munaði þar mest um arðgreiðslur frá Origo vegna sölu á Tempo og frá Símanum vegna sölu á Mílu.

„Það voru einkum þrír áhrifaþættir sem einkenndu hlutabréfamarkaðinn á síðasta ári. Í fyrsta lagi vaxtahækkanir, sem voru umfangsmeiri en flestir markaðsaðilar höfðu vænst farandi inn í síðastliðið ár,“ segir Elvar Ingi Möller, sjóðstjóri arðgreiðslusjóðsins.

Í öðru lagi urðu fjárfestar fyrir vonbrigðum með synjun Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) í tvígang á markaðsleyfi fyrir lyfið AVT02, líftæknihliðstæðuna við Humira. Í þriðja lagi var rekstur og rekstrarumhverfi Marels á síðastliðnu ári markaðsaðilum vonbrigði.

„Erfiðleikar í tengslum við rekstur tveggja stærstu félaganna litaði markaðinn því umtalsvert á síðastliðnu ári og smitaði út frá sér á nánast allan hlutabréfamarkaðinn,“ segir Elvar.  

Segja má að vendipunktur markaðarins á síðastliðnu ári hafi verið þegar JBT birti óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulega yfirtöku á Marel. Það hleypti lífi í markaðinn sem hækkaði á síðasta einum á hálfum mánuði ársins um hátt í 20 prósent og gerði það að verkum að úrvalsvísitalan endaði árið í grennd við núllið fyrir 2023. 

Elvar segir að árið 2024 hafi almennt byrjað nokkuð vel á hlutabréfamarkaði. Hinsvegar eru stórir viðburðir á fyrstu tveimur mánuðum ársins sem geta ráðið miklu til um það hvernig markaðnum farnast á árinu. Þar ber að nefna niðurstöður úr kjaraviðræðum, hvort JBT leggi fram formlegt og skuldbindandi tilboð í Marel og svo síðast en ekki síst þriðja ákvörðun FDA um lyfjaumsókn Alvotech, sem væntanleg er í síðasta lagi í lok febrúar. 

Umfjallanir