Eggert B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, gerir ráð fyrir að Arion banki telji sig geta lagt fram ýtarleg hagræn gögn og útreikninga fyrir Samkeppniseftirlitið, sem sýna fram á að samruni við Íslandsbanka leiði ekki til þess að neytendur verði verr settir eftir samrunann en þeir voru fyrir hann. Samkeppniseftirlitið mun þó eiga síðasta orðið um forsendurnar sem liggja að baki.
Hluthafinn leitaði til Eggerts til að fara yfir helstu álitamálin í tengslum við samrunaáformin en frestur stjórnar Íslandsbanka til að svara tillögu stjórnar Arion banka rennur út á morgun.
Telur þú að Samkeppniseftirlitið muni samþykkja samruna Arion banka og Íslandsbanka, verði látið á hann reyna?
„Að mínu mati verður torsótt fyrir þessa banka að koma samrunanum í gegnum nálarauga Samkeppniseftirlitsins. Að óbreyttri starfsemi og skipulagi þessar tveggja banka eftir sameiningu, verði það nær útilokað.“
Kann samruninn að verða leyfður með vísan til þeirrar miklu hagræðingar sem haldið er fram að hann muni leiða til?
„Já, ekki er hægt að útiloka það, en ég tel þó vandséð að hin ströngu skilyrði, sem gilda um leyfi fyrir samrunum á þeim grunni, verði talin uppfyllt í samruna sem þessum. Skilyrðin lúta að því að tryggja að neytendur myndu njóti beins hags af samrunanum. Það er ekki nóg að hann yrði talin leiða til hagkvæmari nýtingar framleiðsluþáttanna, eins og það er orða í markmiðsákvæði samkeppnislaga, án tillits til áhrifa á neytendur, viðskiptavini bankanna.“
„En verði dregið úr þeirri samkeppnislegu röskun sem nú er við lýði á bankamarkaði – sem Samkeppniseftirlitið nefnir „sameiginlega markaðsráðandi staða“ – með breytingum á starfsemi bankanna og skipulagi, þá aukast óneitanlega líkur á að hagkvæmnisrök dygðu til að samruninn yrði leyfður. Erfitt yrði það þó sem fyrr.“
Þá má ætla að Arion banki hafi ekki farið á flot með þessa tillögu nema bankinn hafi talið raunhæfa möguleika á að Samkeppniseftirlitið heimili samrunann. Hvaða möguleika telur þú að Arion banki sjái?
„Já, það getur varla annað verið en að Arion banki sé með eitthvað plan – áætlun – um hvernig megi koma samrunanum í gegnum nálarauga samkeppnisyfirvalda. Það sem ég held að Arion banki hafi í huga varðandi þennan samruna er einkum tvennt og sennilega samspil beggja þátta.“