Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur að íslenska hlutabréfamarkaðinum skorti þá fjölbreytni í hópi þátttakenda sem má finna á öðrum mörkuðum, svo sem í Svíþjóð og Danmörku, þar sem hlutfall einstaklinga, hlutabréfasjóða og erlendra fjárfesta er hærra en þekkist hér.
„Við sjáum að okkur vantar fjölbreytileikann sem er annars staðar, sérstaklega erlenda fjárfesta,“ sagði Magnús á ráðstefnu SFF í gær.
Þá tilkynnti hann að Kauphöllin ætti í viðræðum við uppgjörshúsið Euroclear um tengingu við íslenska markaðinn.
„Það myndi auðvelda aðgengi erlendra fjárfesta að íslenska markaðinum alveg gríðarlega. Þeir þurfa þá ekki að gera sérstakar ráðstafanir til að eiga viðskipti hérna. Ég get sagt það að við hjá Nasdaq erum að ræða við Euroclear þessa dagana og hvetja þá til góðra verka í þessum efnum.“

„Kúltúr þar sem ríkustu tíu prósentin fjárfesta í hlutabréfum og fá meiri uppsafnaða ávöxtun“
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, telur að fjárfestingarreikningar með skattalegu hagræði fyrir almenning, eins og þeir sem Svíþjóð hefur notað til að byggja upp sinn hlutabréfamarkað, séu vel til þess fallnir að virkja betur þjóðhagslegan sparnað.
„Þótt við séum með frábært lífeyriskerfi þá stöndum við frammi fyrir sömu áskorun og Evrópa: hvernig við virkjum fleiri til þátttöku á markaðinum?“
Slíkir reikningar eru einnig leið til að brjóta upp það mynstur að ríkustu 10 prósentin fjárfesta meira í hlutabréfum en rest, og fá þannig meiri uppsafnaða ávöxtun.
„Við erum með kúltúr þar sem ríkustu tíu prósentin fjárfesta á hlutabréfamarkaði og fá meiri uppsafnaða ávöxtun. Hin 90 prósentin eru bundin miklu meira í innlánum og fasteignum, sem bera lægri ávöxtun.“
Sproti í ferðatækni sækir nýtt hlutafé fyrir hundruð milljóna króna
Íslenskt sprotafyrirtæki, sem hefur þróað tæknilausn fyrir ferðaþjónustu, vinnur að því að sækja fleiri hundruð milljóna króna í nýtt hlutafé samkvæmt skjölum sem var skilað inn til SEC, verðbréfaeftirlitsins í Bandaríkjunum, fyrr í þessari viku.