Væntingar til bréfanna í Sýn, sem lækkaði um þriðjung á markaði í fyrra eftir að hafa lækkað um fimmtung árið áður, eru enn með lægsta móti. Í könnun sem Viðskiptablaðið framkvæmdi rétt eftir áramót taldi þriðjungur þátttakenda að Sýn myndi lækka mest allra félaga á markaði á árinu og var félagið langsamlega neðst á lista. Eins var Sýn í næstneðsta sæti í árslokakönnun sem greiningarfélagið Akkur stóð fyrir.
„Félagið er búið að vera að taka skref í rétta átt en það er enn þá töluvert í land. Fjarskipti vaxa mjög hægt og eru í miklu samkeppnisumhverfi þannig að þar er lítinn vöxt að finna,“ segir Sigurður Óli Sigurðarson, greinandi hjá markaðsviðskiptum Landsbankans.
„Á sama tíma er leigukostnaður tengdur fjarskiptainnviðum gríðarlega hár og hefur mikil áhrif á hagnað félagsins í gegnum afskriftir og fjármagnskostnað.“

Til að snúa þessari þróun við var Herdís Dröfn Fjeldsted, sem hafði getið sér gott orð fyrir störf hjá Framtakssjóði Íslands og síðan umbreytingarstjórnun hjá Valitor, ráðin forstjóri Sýnar í byrjun síðasta árs. Þegar hún tók til starfa blastið við henni viðamikið verkefni, eins og fram kom í erindi Herdísar á markaðsdegi Sýnar í nóvember.
„Hérna var félagið rekið eins og um margar sjálfstæðar einingar væri að ræða. Þetta þýðir of mikil yfirbyggingar, alltof mikill kostnaður og alltof mikið flækjustig,“ sagði hún.
„Sameiningar síðustu ára hafa ekki komið til fullra framkvæmda. Það þýðir hindranir í skilvirkum boðleiðum og hindranir í samstarfi þvert yfir. Framlegðin er því ekki komin fram að fullu. Og [...] ofan á það er innri pólitík sem fylgir þessu. Sviðin hafa ekki verið að dansa í takt.“
Hagræðingin sem fylgdi í kjölfarið hefur fækkað stöðugildum Sýnar um 70 sem skilar sparnaði upp á 850 milljónir króna. Í krafti þess gáfu stjórnendur út afkomuspá um mitt ár sem hljóðaði þannig að EBIT, rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta, yrði á bilinu 900-1.100 milljónir króna á árinu.
„Við vitum það alveg að markaðurinn hafði enga trú á okkur, eða takmarkaða trú. Og ég skil það mjög vel,“ sagði Eðvald Ingi Gíslason, fjármálastjóri Sýnar, á markaðsdegi fyrirtækisins í nóvember. Í þessu samhengi benti hann á að EBIT hefði einungis staðið í 169 milljónum um mitt ár, og 363 milljónum í lok þriðja ársfjórðungs.
Til þess að ná upp í neðri mörk afkomuspánnar þarf Sýn, sem birtir uppgjörið um miðjan febrúar, að sýna fram á verulegan rekstrarbata á síðasta fjórðungi. Rekstrarhagnaður þarf að vera yfir 500 milljónum, sem er meira en hann var samanlagt á fyrstu þremur fjórðungunum.
Eftir því sem nær dregur uppgjöri án þess að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun aukast líkurnar á því að markmiðinu hafi verið náð. Þá hafa stjórnendur sett metnaðarfullt markmið um að EBIT verði 1.500-1.700 milljónir á þessu ári.

Ekkert virðist þó hreyfa mikið við genginu – að minnsta kosti ekki upp á við – en Sýn er iðulega á meðal þeirra fimm félaga sem reka lestina í gengisþróun, hvort sem litið er viku, mánuð, þrjá mánuði, sex mánuði eða lengra aftur í tímann.
„Það skiptir engu máli hvaða spár stjórnendur gefa út – markaðurinn tekur ekki mark á þeim fyrr en hann sér einhverjar niðurstöður,” segir einn af stærri hluthöfum Sýnar, sem vildi ekki koma fram undir nafni.