Arðgreiðslusjóður Stefnis var sá hlutabréfasjóður sem skilaði bestu ávöxtuninni í flokki innlendra hlutabréfa á síðasta ári og raunar eini opni sjóðurinn sem var réttum megin við núllið. Sjóðstjórinn segir arðgreiðslufélög hafa veitt ágæta verðbólguvörn og sjóðurinn hafi staðið undir þeirri ávöxtunarkröfu sem er gerð til hlutabréfa undanfarin ár.
Sjóðurinn, sem er 1,4 milljarðar króna að stærð, var stofnaður í byrjun árs 2021 og er nú með tæplega 1.200 skírteinishafa. Hugmyndin á bak við stofnun sjóðsins var tvíþætt. Í fyrsta lagi að bjóða upp á hlutabréfasjóð sem greiðir eigendum sjóðsins arð í stað þess að endurfjárfesta arðgreiðslum, þ.e. arðgreiðslusjóð í stað uppsöfnunarsjóðs. Þetta fyrirkomulag er vel þekkt erlendis en Arðgreiðslusjóðurinn er sá eini sinnar tegundar hér á landi.
„Í öðru lagi var það að bjóða upp á sjóð með fjárfestingastefnu frábrugðna fjárfestingastefnum sem almennt þekktust á markaðinum hér heima. Þar sem fyrst og fremst væri fjárfest í rótgrónum íslenskum félögum sem hefðu mótað sér arðgreiðslustefnu, greitt arð og stefndu á að greiða arð á næstunni,“ útskýrir Þorsteinn Andri Haraldsson, sjóðstjóri.
Eignasamsetning sjóðsins er því nokkuð frábrugðin því sem gengur og gerist hjá öðrum hlutabréfasjóðum hér á landi. Stór vaxtarfélög hafa á undanförnum árum verið nokkuð fyrirferðarmikil í bæði eignasöfnum og íslenskum hlutabréfavísitölum, en þau hafa fengið litla sem enga vigt í Arðgreiðslusjóðnum.
Félög með hærri arðgreiðsluhlutföll fá alla jafna meiri vigt en önnur en sem dæmi hafa bankarnir verið í þyngri vigtum en sjávarútvegsfélögin og einnig er horft til þess að arðgreiðslurnar séu sjálfbærar.

Árið 2025 var krefjandi fyrir innlenda hlutabréfafjárfesta. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,08 prósent á árinu og Heildarvísitalan lækkaði um 8,97 prósent. Arðgreiðslusjóðurinn skilaði hins vegar 5 prósenta ávöxtun á meðan allir aðrir hlutabréfasjóðir voru í mínus samkvæmt vef Keldunnar.
Þá hefur sjóðurinn nánast haldið í við S&P 500-vísitöluna frá stofnun. Þorsteinn Andri segir að iðulega komi sú staðreynd fólki á óvart enda hafi stórar gengissveiflur á markaði frekar fengið athygli fjölmiðla og markaðsaðila.
„Staðreyndin er sú að megninu af íslenskum arðgreiðslufélögum hefur vegnað ágætlega yfir þetta tímabil þrátt fyrir hátt vaxtastig, sem endurspeglar þann góða gang sem hefur verið í hagkerfinu á undanförnum árum,“ segir hann.
„Þess konar félög hafa einnig veitt ágæta verðbólguvörn og má því segja að Arðgreiðslusjóðurinn hafi staðið undir þeirri ávöxtunarkröfu sem er gerð til hlutabréfa undanfarin ár.“
Spurður um horfurnar fyrir þetta ár segir hann að þær séu ágætar þótt blikur séu á lofti. Atvinnuleysi hafi aukist nokkuð að undanförnu, verðbólgan reynst treg í taumi og raunvaxtastig hátt.
„Íslenska hagkerfið hefur aftur á móti sýnt mikinn viðnámsþrótt, skuldsetning er almennt lítil og staða heimilanna góð. Það er ekki útlit fyrir mikinn hagvöxt í ár, líkt og árið 2025, en það er borð fyrir báru til að bregðast við þeirri þróun með því að draga úr raunvaxtaaðhaldi eftir því sem líður á árið.“
Þá segir hann að Stefnir sé að vinna í nýjungum sem tengjast Arðgreiðslusjóðnum og verða þær kynntar síðar á þessu ári.