Beint í umfjöllun

Skuldbinda sig til að undirbúa hátæknibrennslustöð

Sam­band ís­lenskra sveitarfélaga og Um­hverfis­ráðu­neytið hafa skuld­bundið sig til að vinna sam­eigin­lega að undir­búningi á upp­byggingu hátækni­brennslu­stöð á Ís­landi.

Í samningi sem við­semj­endur hafa skrifað undir og birtur var í síðustu fundar­gerð sam­bandsins mun ráðu­neytið fjár­magna undir­búning verk­efnisins, þar á meðal könnun á vilja sveitarfélaga til þátt­töku og undir­búning á flutningsjöfnunar­kerfi þannig að allir lands­menn búi við sama flutnings­kostnað vegna úr­gangs til brennslu.

Stýri­hópur sem skilaði skýrslu vorið 2024 lagði mat á fýsi­leika verk­efnisins og var ein af niður­stöðunum sú að það væri hagstæðari kostur fyrir öll sveitarfélög að skipta við stóra hátækni­brennslu á Helgu­víkur­svæðinu heldur en að flytja út sorp til brennslu. Stofn­kostnaður fyrir stóra brennslu­stöð var metinn á bilinu 22-30 milljarðar króna.

„Um­fang verk­efnisins er slíkt að ekkert eitt sveitarfélag eða sorp­sam­lag getur staðið eitt að því. Bein og óbein aðkoma ríkis að undir­búnings­félaginu er því mjög mikilvæg,“ sagði í skýrslu stýri­hópsins. Þá var einnig bent á að brennslu­stöð væri eftir­sóknar­verð fyrir vissan hóp fjár­festa, enda upp­fylli fjár­festingin til­tekin skil­yrði um sjálf­bærni og um­hverfisáhrif.

Verk­efnið er mjög tíma­frekt en tals­maður Sorpu sagði við mbl.is í haust að það tæki allt að ára­tug að skipu­leggja og fram­kvæma upp­byggingu á hátækni­brennslu­stöð. Um­hverfis­ráðu­neytið mun skipa samráðs­hóp með þátt­töku annarra ráðu­neyta þar sem staða verk­efnisins verður yfir­farin reglu­lega.

Umfjallanir