Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytið hafa skuldbundið sig til að vinna sameiginlega að undirbúningi á uppbyggingu hátæknibrennslustöð á Íslandi.
Í samningi sem viðsemjendur hafa skrifað undir og birtur var í síðustu fundargerð sambandsins mun ráðuneytið fjármagna undirbúning verkefnisins, þar á meðal könnun á vilja sveitarfélaga til þátttöku og undirbúning á flutningsjöfnunarkerfi þannig að allir landsmenn búi við sama flutningskostnað vegna úrgangs til brennslu.
Stýrihópur sem skilaði skýrslu vorið 2024 lagði mat á fýsileika verkefnisins og var ein af niðurstöðunum sú að það væri hagstæðari kostur fyrir öll sveitarfélög að skipta við stóra hátæknibrennslu á Helguvíkursvæðinu heldur en að flytja út sorp til brennslu. Stofnkostnaður fyrir stóra brennslustöð var metinn á bilinu 22-30 milljarðar króna.
„Umfang verkefnisins er slíkt að ekkert eitt sveitarfélag eða sorpsamlag getur staðið eitt að því. Bein og óbein aðkoma ríkis að undirbúningsfélaginu er því mjög mikilvæg,“ sagði í skýrslu stýrihópsins. Þá var einnig bent á að brennslustöð væri eftirsóknarverð fyrir vissan hóp fjárfesta, enda uppfylli fjárfestingin tiltekin skilyrði um sjálfbærni og umhverfisáhrif.
Verkefnið er mjög tímafrekt en talsmaður Sorpu sagði við mbl.is í haust að það tæki allt að áratug að skipuleggja og framkvæma uppbyggingu á hátæknibrennslustöð. Umhverfisráðuneytið mun skipa samráðshóp með þátttöku annarra ráðuneyta þar sem staða verkefnisins verður yfirfarin reglulega.