Beint í umfjöllun

Sjóður Íslenskra verðbréfa með besta skorið í erlendum hlutabréfum

Á liðnu ári skilaði ÍV Alþjóðlegur hlutabréfasjóður, sem er á snærum Íslenskra verðbréfa, bestu ávöxtun þeirra opnu innlendu sjóða sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum. Ávöxtunin nam alls 7,4 prósentum mælt í íslenskum krónum samkvæmt yfirliti Keldunnar.

Sjóðurinn fjárfestir með jöfnu vægi í 100 stærstu félögum heimsvísitölunnar MSCI All Country World Index og er endurveginn (e. rebalanced) í upphafi hvers mánaðar. Þau félög sem hafa hækkað í verði í mánuðinum á undan eru seld að hluta, en keypt er í þeim félögum sem hafa lækkað, þannig að vægi hvers félags verði aftur 1 prósent. Þessi aðferðafræði eykur vægi smærri félaga á kostnað þeirra stærri ef miðað er við hefðbundnar markaðsvegnar vísitölur.

Sjóðurinn hefur skilað 13,41 prósenta árlegri ávöxtun síðustu þrjú ár, en honum hefur verið stýrt samkvæmt þessari aðferðafræði yfir allt tímabilið. Aðeins ÍV Erlent hlutabréfasafn, sem einnig er í stýringu Íslenskra verðbréfa, skilaði betri ávöxtun í flokki erlendra hlutabréfa á sama tímabili með 20,08 prósenta árlega ávöxtun samkvæmt upplýsingum frá sjóðastýringarfyrirtækinu.

Halldór Andersen sjóðstjóri segir að nokkrir ólíkir þættir takast nú á varðandi horfur næstu missera. Vinnumarkaðurinn vestanhafs eigi undir högg að sækja en á sama tíma eigi sér stað mikil fjárfesting á sviði gervigreindar.

„Horfur neytenda eru dökkar samkvæmt væntingavísitölu University of Michigan (Consumer Sentiment Index), en núverandi horfur mælast verri en þær voru rétt eftir fjármálahrunið árið 2008,“ segir Halldór.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur talið fyrir frekari vaxtalækkunum og það er útlit fyrir að Kevin Allen Hassett, sem hefur tekið undir málflutning Trumps, verði næsti seðlabankastjóri.

„Samhliða slakara taumhaldi peningastefnu er útlit fyrir að fjárfesting í gervigreind muni hafa áframhaldandi jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði á næstunni. Hins vegar er verðlagning hlutabréfa hlutfallslega há í sögulegu tilliti samkvæmt V/H hlutfalli S&P 500,“ segir Halldór og bendir á að vænt árleg ávöxtun til næstu 10 ára sé lítil ef samband ávöxtunar til næstu 10 ára er skoðað sem fall af V/H hlutfallinu frá lok árs 1927 til dagsins í dag.

Umfjallanir