Hluthafinn óskar lesendum gleðilegs nýs árs. Við erum á fullu að vinna efni fyrir tölublaðið í næstu viku, þar á meðal umfjallanir um nýsköpunarfélög, orkumál, ESG, milliríkjaviðskipti og rafmyntir, svo fátt eitt sé nefnt.
Í tilefni áramótanna ákváðum við að taka saman hvaða almennu verðbréfasjóðir skiluðu bestu ávöxtuninni í sínum flokki og fengum sjóðstjórana til að gera upp árið og fara yfir horfurnar. Að þessu sinni eru fréttirnar einungis á vefformi – og reyndar opnar öllum lesendum – en tölublaðsformið snýr aftur í næstu viku.
Eins og kom fram í síðasta pósti hækkar verð fyrir einstaklingsáskrift úr 1.790 í 2.590 krónur í næstu viku. Við hvetjum því alla áskrifendur til að tryggja sér ársáskrift á núverandi kjörum, 17.000 krónur, sem jafngildir 1.490 krónum á mánuði.
Það má gera með einföldum hætti með því að fara á forsíðuna og smella á „Reikningur“ uppi í hægra horninu. Þannig má spara bæði fé og komast hjá mánaðarlegum kvittunum.
Nýjar fréttir

Sjóðstjóri skuldabréfasjóðsins sem skilaði hæstu ávöxtuninni í fyrra segir að vaxtalækkunin í nóvember sé að eldast illa og skaði líklega sjálfstraust peningastefnunefndar til að vera framsýn við lækkun vaxta á næstu misserum. Hann segir ástæðu til að óttast óhagfelldar verðbólgumælingar á fyrstu mánuðum ársins en er þó enn bjartsýnn á hóflegar vaxtalækkanir undir lok árs.

Arðgreiðslusjóður Stefnis var sá hlutabréfasjóður sem skilaði bestu ávöxtuninni í flokki innlendra hlutabréfa á síðasta ári og raunar eini opni sjóðurinn sem var réttum megin við núllið. Sjóðstjórinn segir arðgreiðslufélög hafa veitt ágæta verðbólguvörn og sjóðurinn hafi staðið undir þeirri ávöxtunarkröfu sem er gerð til hlutabréfa undanfarin ár.

Á liðnu ári skilaði ÍV Alþjóðlegur hlutabréfasjóður, sem er á snærum Íslenskra verðbréfa, bestu ávöxtun þeirra opnu innlendu sjóða sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum. Ávöxtunin nam alls 7,4 prósentum mælt í íslenskum krónum samkvæmt yfirliti Keldunnar.


