Sérstaða Íslands í orkumálum skapar verulegt virði fyrir hagkerfið og veldur því að framlag orkugeirans er metið 20 prósent af vergri landsframleiðslu samkvæmt nýrri greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið Kontext vann fyrir Íslandsstofu og Orkuklasann. Í greiningunni er einnig varpað ljósi á það hvernig raforkuvinnsla hefur veruleg áhrif á þróun lífskjara á næstu árum og áratugum.
Sérstaða Íslands birtist með margvíslegum hætti í opinberum tölum, eins og fram kemur í greiningunni sem var kynnt á Nýársfundi Orkuklasans í fyrradag. Hér er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa mun hærra en annars staðar, eða um 85 prósent af heildarorkunotkun samanborið við 52 prósent hjá Noregi sem er í öðru sæti. Og hvergi í Evrópu er orkugeirinn jafnstór hluti af vergri landsframleiðslu og á Íslandi, alls 4,1 prósent árið 2023.


Þá er orkan tiltölulega ódýr eins og kunnugt er. Þegar Evrópuríkin eru borin saman og leiðrétt er fyrir kaupmætti sést að norsku heimilin eru þau einu sem eiga kost á ódýrari raforku en íslensku heimilin.
Greining Konext sýnir að verðþróun raforku hefur fylgt almennu verðlagi nokkuð vel á síðustu árum. Vísitala raforkuverðs fyrir heimili hefur aðeins hækkað um 2 prósent á föstu verðlagi frá árinu 2017 á meðan fyrirtæki landsins hafa horft upp á 12 prósenta hækkun yfir sama tímabil.