Beint í umfjöllun

Sérstaða í orkumálum, gengi Controlant og skautun atvinnustefnu

Sérstaða Íslands í orkumálum skapar verulegt virði fyrir hagkerfið og veldur því að framlag orkugeirans er metið 20 prósent af vergri landsframleiðslu samkvæmt nýrri greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið Kontext vann fyrir Íslandsstofu og Orkuklasann. Í greiningunni er einnig varpað ljósi á það hvernig raforkuvinnsla hefur veruleg áhrif á þróun lífskjara á næstu árum og áratugum.

Sérstaðan birtist með margvíslegum hætti í opinberum tölum, eins og fram kemur í greiningunni sem var kynnt á Nýársfundi Orkuklasans í fyrradag. Hér er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa mun hærra en annars staðar, eða um 85 prósent af heildarorkunotkun samanborið við 52 prósent hjá Noregi sem er í öðru sæti. Og hvergi í Evrópu er orkugeirinn jafnstór hluti af vergri landsframleiðslu og á Íslandi, alls 4,1 prósent árið 2023.

Sérstaða í orkumálum skapar heilmikið virði samkvæmt nýrri greiningu
Sérstaða Íslands í orkumálum skapar verulegt virði fyrir hagkerfið og veldur því að framlag orkugeirans er metið 20 prósent af vergri landsframleiðslu samkvæmt nýrri greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið Kontext vann fyrir Íslandsstofu og Orkuklasann. Í greiningunni er einnig varpað ljósi á það hvernig raforkuvinnsla hefur veruleg áhrif á þróun lífskjara á

Gengi Controlant tekið niður um helming í kringum áramótin

Gengi óskráðra hlutabréfa í tæknifyrirtækinu Controlant var uppfært í kerfum tveggja banka hið minnsta í kringum áramótin – í fyrsta sinn í rúmlega ár – og lækkaði þá um helming. Gengið, sem endurspeglar viðskipti sem áttu sér stað fyrr í vetur, er aðeins tíund af því sem var þegar mest lét.

Gengi Controlant tekið niður um helming í kringum áramótin
Gengi óskráðra hlutabréfa í tæknifyrirtækinu Controlant var uppfært í kerfum tveggja banka hið minnsta í kringum áramótin – í fyrsta sinn í rúmlega ár – og lækkaði þá um helming. Gengið, sem endurspeglar viðskipti sem áttu sér stað fyrr í vetur, er aðeins tíund af því sem var þegar mest lét.

Geta háleit markmið minnkað skautun um atvinnustefnu?

Um þessar mundir vinnur forsætisráðuneytið úr þrjú hundruð tillögum sem bárust á meðan drög að atvinnustefnu voru í samráðsferli og er stefnt að því að birta nýju stefnuna á þessum ársfjórðungi. Í tengslum við mörkun nýrrar stefnu stóð ráðuneytið fyrir morgunfundi í vikunni þar sem Mariana Mazzucato, prófessor við University College London (UCL) og metsöluhöfundur, var fengin til að lýsa sinni nálgun en hún verið mörgum ríkisstjórnum til ráðgjafar í þessum efnum.

Á morgunfundinum sýndi Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á spilin þegar hún nefndi sérstaklega lífvísindi og lagareldi sem styrkleika í íslensku efnahagslífi sem stjórnvöld vilja byggja upp enn frekar. Þá nefndi hún einnig helstu áherslumálin; sókn í uppbyggingu raforkukerfisins, aukna áherslu á STEM-greinar í háskólanámi og iðn- og tækninám, og loks það að stjórnvöld vilji „skoða þátttöku“ lífeyrissjóða að atvinnulífinu.

En en það sem veldur ráðherra hugarangri er „skautun“ í íslenskri stjórnmálaumræðu og hvernig hún getur aftrað framförum. Allt tal um sjálfbærnimál, nefndi ráðherra sem dæmi, geti fljótt snúist upp í umræðu um of þungt regluverk.

„Mitt stærsta áhyggjuefni er sú staðreynd að við sjáum aukna skautun í umræðum og í rökræðum. Því miður er það að smitast í stjórnmálum hér á Íslandi þannig að þegar við reynum að leysa vandamál þá snýst umræðan um „annað hvort eða“; þú ert með aðgerðasinna á báðum endum og málið endar í pattstöðu.“

Lausnin kann að felast í nálgun Mazzucato. Í bókum hennar, meðal annars The Entrepreneurial State og The Mission Economy, gagnrýnir hún viðteknar hugmyndir um passíft hlutverk ríkisins í nýsköpun og hagvexti, og talar fyrir markmiðabundinni nálgun (e. mission oriented approach) þar sem stjórnvöld setja metnaðarfull markmið til að leysa krafta atvinnulífsins úr læðingi. Tunglferðin árið 1969, sem leiddi af sér uppfinningar á borð við internetið og þurrmjólk, er gott dæmi að mati Mazzucato.

„NASA þurfti ekki að færa rök fyrir efnahagslegu virði verkefnisins á sínum tíma,“ sagði Mazzucato á morgunfundinum.

„Það sem felst í markmiðabundinni nálgun er að byrja á áskorun, breyta henni í markmið og finna svo leiðir til að fá margar ólíkar atvinnugreinar til að leggja hönd á plóg. Og svo er verkfærum ríkisins beitt; opinberum innkaupum, opinberum lánum, skattalegum hvötum og ríkisábyrgðum, til að örva nýsköpun í einkageiranum.“

Við mörkun atvinnustefnu er því varasamt að einblína á hagvöxt, sagði Mazzucato, en vöxtur landsframleiðslu á mann hefur einmitt verið leiðarljós íslenskra stjórnvalda hingað til. Þess í stað þarf að setja metnaðarfull og háleit markmið sem hvetja til breiðrar samvinnu hins opinbera og atvinnulífsins. Í tilfelli Íslands gætu þau snúist um að gera landið að alþjóðlegri miðstöð fyrir sjálfbæran gagnaversiðnað eða græna vetnisframleiðslu, eða sjálfbæra ferðaþjónustu.

Ráðherra virtist hrifinn:

„Ef okkur tekst að vera með sameiginlegan fókus á það sem við erum að reyna að gera þá gætu mörg af þeim vandamálum sem við höfum glímt við verið auðleysanlegri.“


Markmiðið var að birta tölublað í þessari viku en við þurfum líklega að breyta nálguninni örlítið. Það að bæði brjóta um heilt blað með frekar frumstæðu forriti og skrifa allar fréttirnir á sama tíma hefur verið yfirgengilega tímafrekt fyrir einn mann og komið niður á fréttaskrifum, sem er á skjön við það sem við viljum.

En við teljum þó að vikulegt tölublað sé góð viðbót, ekki síst eftir að ViðskiptaMogginn hætti vikulegri útgáfu, þannig að við ætlum að reyna að bjarga konseptinu með eftirfarandi nálgun:

Hugmyndin er að birta fréttabréf þrisvar í viku; fyrst á þriðjudegi, svo á fimmtudegi og loks tölublað á laugardegi þar sem fyrri fréttir eru teknar saman ásamt nýju efni.

Þannig er búið að skrifa megnið af blaðinu þegar umbrotið hefst, en jafnframt mun það innihalda nýtt efni svo að lesendur hafi einhvern hvata til að opna það. Látum á það reyna.


Umfjallanir