Beint í umfjöllun

Sitt sýnist hverjum um aðhaldsstig fjárlagafrumvarpsins sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra lagði fram í byrjun september. Sjálfur hefur ráðherra lagt mikla áherslu á að fjárlögin séu sannarlega aðhaldssöm á meðan stjórnarandstaðan segir aðhaldið ekki duga til að styðja við vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands.

Nú liggur afstaða Seðlabankans fyrir en á kynningarfundi peningastefnunefndar í gær spurði Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, hvernig fjárlögin legðust í nefndina.

„Fjárlagfrumvarpið er að hjálpa til og ég tel að það sé verið að sýna aðhald,“ svaraði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Aðhaldsstigs ríkisfjármála hefur áhrif á heildareftirspurn í hagkerfinu og þar með á verðbólguhorfur. Í þessu tilliti horfir Seðlabankinn helst til þess hvernig frumjöfnuður ríkissjóðs breytist á milli ára að teknu tilliti til hagsveiflunnar.

Í frumvarpinu er áætlað að afgangur af frumjöfnuði ríkissjóðs batni um sem nemur 0,3 prósentum af landsframleiðslu frá fyrra ári. Þá mun aðhaldsstigið aukast á næsta ári og er sú aukning talin nema um 0,2-0,3 prósentum af framleiðslugetu hagkerfisins.

Í nýrri umsögn Seðlabankans um frumvarpið er þó tekið fram að brýnt sé í ljósi verðbólguþróunar að ekki verði vikið frá aðhaldinu á næstu misserum.

„Með því geta ríkisfjármálin lagst á sveif með Seðlabankanum í að ná verðbólgumarkmiði bankans og draga úr aðhaldsþörf peningastefnunnar.“

Umfjallanir