Tilfærsla á hugverkaréttindum Kerecis frá Íslandi til Danmerkur mun skila ríkissjóði nærri 40 milljörðum íslenskra króna að tveimur eða þremur árum liðnum. Þetta staðfestir danska móðurfélagið og lækningavöruframleiðandinn Coloplast við Hluthafann.
Coloplast birti uppgjör fyrir fyrsta fjórðung fjárhagsársins, sem náði frá byrjun október til ársloka, fyrr í vikunni og kom þar fram að hugverkaréttindi Kerecis hefðu verið færð frá Íslandi til Danmerkur. Þetta hafði veruleg áhrif á skatthlutfall danska fyrirtækisins, sem er vanalega 22 prósent en rauk upp í 41 prósent á fjórðungnum.
Tilfærslan skapaði sérstakan skattkostnað í bókhaldinu (e. extraordinary tax expense) á Íslandi upp á 336 milljónir danskra króna á fjórðungnum og mun hið sama gilda á næstu þremur fjórðungum. Á móti lækkar skattbyrði Coloplast í Danmörku sem því nemur.