Íslenska sprotafyrirtækið Quest Portal, sem hefur þróað lausn fyrir svokölluð spunaspil, er farið að skila umtalsverðum tekjum einungis einu og hálfu ári frá því að lausnin var sett í loftið. Nálgun stofnenda er nokkuð frábrugðin fyrri atrennum í leikjabransanum – fyrst hjá Plain Vanilla og síðan Teatime – því nú er mikil áhersla lögð á það að tekjur standi undir vextinum.
„Eins og með öll sprotafyrirtæki þá er þetta mikil áhætta og mikil vinna. Ef maður býr sig undir að vera kýldur í andlitið á hverjum degi og er síðan ekki kýldur í andlitið, þá getur maður verið sáttur með daginn,“ segir Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, spunaspilari frá tólf ára aldri og einn af stofnendum Quest Portal ásamt Steini Steinsen og Guðmundi Gunnlaugssyni.
Spunaspil eru tegund af spilum þar sem þátttakendur setja sig í hlutverk persónu í ímynduðum heimi, sem oft er tengdur ævintýrum eða goðsögnum. Ólíkt hefðbundnum borðspilum, sem jafnan ganga út á samkeppni, snúast spunaspil um samvinnu þátttakenda við að leysa hin ýmsu verkefni undir handleiðslu svokallaðs spunastjóra.
„Að mínu mati er þetta fallegasta form leikja sem til er. Hópur vina kemur saman, sest við eldhúsborðið og fer á vit ævintýranna. Og það eru til ritrýndar greinar sem sýna að spunaspil efla sköpunargleði, teymisvinnu og samkennd,“ segir Gunnar.
Það að spila spunaspil er dálítil serimónía, sem getur verið yfirþyrmandi fyrir byrjendur. Spunastjórinn þarf að verða sér úti um reglubækur sem eru sumar hundruð blaðsíðna að lengd og spilarar hafa þurft að samhæfa sig til að safnast saman á tilsettum tíma. Þarna kemur Quest Portal inn í myndina.

„Það sem við erum að reyna er að gera þetta aðgengilegra og auðveldara, og fá þannig fleiri til að spila. Þú getur keypt reglubækurnar hjá okkur og gervigreindin þekkir þær út og inn. Þannig er hægt að spyrja gervigreindina í rauntíma hvernig hinn og þessi galdur virkar,“ segir Gunnar.
Annar eiginleiki er fjarspilun sem þýðir að spilarar þurfa ekki að vera á sama staðnum og kemur sér vel fyrir fólk með takmarkaðan tíma til að hittast og spila. Í Quest Portal er einnig hægt að notast við kort, sem sýnir hvar allir spilarar eru innan ævintýraheimsins, og gervigreindin er fær um að skapa umhverfishljóð sem láta spilurum líða eins og þér séu á staðnum.
Og ef spilararnir fara inn á ímyndaðan bar, svo dæmi sé tekið, getur gervigreindin aðstoðað við að spinna upp baksögu fyrir drungalega manninn sem reykir pípu í horninu. Allt miðar þetta að því að magna upplifunina og minnka umstangið.