Stefán Örn Einarsson er forstjóri og stofnandi Teqhire, sem sérhæfir sig í ráðningum í tækni og nýsköpun, hvort sem um ræðir sprota, vaxtarfélög eða framleiðslufyrirtæki sem vilja byggja upp tækniinnviði. Teqhire hefur unnið með þeim íslensku fyrirtækjum sem hafa náð hvað mestum árangri á erlendri grundu, sem og fjárfestingarsjóðum og fjölbreyttum hópi fyrirtækja víðs vegar um Evrópu og Bandaríkin.
Hvernig hafa ráðningar breyst frá því að þú stofnaðir Teqhire árið 2013?
„Þá fólust verðmætin fyrst og fremst í leitinni sjálfri; að grafa upp nafnið, prófílinn eða forritarann, sem enginn annar hafði fundið. Tólf árum síðar er veruleikinn allt annar. Upplýsingar um fólk, ferla og hæfni eru að mestu leyti öllum aðgengilegar. Það sem skiptir máli í dag er ekki lengur að finna nafnið heldur það sem gerist eftir það – framkvæmdin,“ segir Stefán.