Íslenska tæknifyrirtækið Noona labs er vel í stakk búið fyrir sókn á erlendum mörkuðum eftir að hafa selt innlendu starfsemina og um leið gert leyfissamning við Símann. Kjartan Þórisson, framkvæmdastjóri Noona, segir að fyrirtækið skoði möguleikann á því að stofna til samstarfs af svipuðum toga við fjarskiptafélög erlendis.
„Við erum einnig að kanna hvort önnur fjarskiptafélög úti í heimi hafi áhuga á því að gera það sama og Síminn gerði með Noona. Það er ekkert leyndarmál að fjarskiptafélög hafa árum saman leitast við að fjölga tekjustoðum,“ segir Kjartan í samtali við Hluthafann.
Seðlabankastjóri segir fjárlögin hjálpa til
Sitt sýnist hverjum um aðhaldsstig fjárlagafrumvarpsins sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra lagði fram í byrjun september. Sjálfur hefur ráðherra lagt mikla áherslu á að fjárlögin séu sannarlega aðhaldssöm á meðan stjórnarandstaðan segir aðhaldið ekki duga til að styðja við vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands.
Nú liggur afstaða Seðlabankans fyrir en á kynningarfundi peningastefnunefndar í gær spurði Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, hvernig fjárlögin legðust í nefndina.
„Fjárlagfrumvarpið er að hjálpa til og ég tel að það sé verið að sýna aðhald,“ svaraði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Aðhaldsstigs ríkisfjármála hefur áhrif á heildareftirspurn í hagkerfinu og þar með á verðbólguhorfur. Í þessu tilliti horfir Seðlabankinn helst til þess hvernig frumjöfnuður ríkissjóðs breytist á milli ára að teknu tilliti til hagsveiflunnar.
Í frumvarpinu er áætlað að afgangur af frumjöfnuði ríkissjóðs batni um sem nemur 0,3 prósentum af landsframleiðslu frá fyrra ári. Þá mun aðhaldsstigið aukast á næsta ári og er sú aukning talin nema um 0,2-0,3 prósentum af framleiðslugetu hagkerfisins.
Í nýrri umsögn Seðlabankans um frumvarpið er þó tekið fram að brýnt sé í ljósi verðbólguþróunar að ekki verði vikið frá aðhaldinu á næstu misserum.
„Með því geta ríkisfjármálin lagst á sveif með Seðlabankanum í að ná verðbólgumarkmiði bankans og draga úr aðhaldsþörf peningastefnunnar.“

Orkuskortur takmarkar tækifæri í gagnaiðnaði
Umsvif gagnavera á heimsvísu munu þrefaldast fram að árinu 2030 samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og mun vöxturinn krefjast fjárfestinga upp á 7 þúsundir milljarða Bandaríkjadala. Yfir sama tímabil er búist við því hlutdeild raforku sem er ráðstafað til gagnavera fara úr 3 prósentum og upp í 10 prósent af heildarframleiðslu.
En þótt mikið sé rætt um vöxt gagnavera hér á landi er staðreyndin sú að að Ísland er lítill fiskur í stjórri tjörn, eins og fram kom í máli Jóns Þorbjarnarsonar frá McKinsey á fundi sem Landsvirkjun stóð fyrir á föstudaginn. Staðreyndin er sú að íslensku gagnaverin nota 3 prósent af framleiddri raforku, sem er svipað og þekkist á Norðurlöndunum. Hlutfallslegt umfang er ekki svo frábrugðið helstu þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við að sögn Jóns.