Beint í umfjöllun

Miðeind ehf., sem er í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, var upphaflega fjárfestingafélag með blandað safn af verðbréfum og eignarhlutum í íslenskum sprotum. En á síðasta áratug hefur það umbreyst í tæknifyrirtæki eftir að hafa þróað og markaðssett máltæknilausnir sem eru sérsniðnar fyrir íslenska tungu.

Viðfangsefnið er ærið því hröð framþróun gervigreindar vekur upp spurningar um það hvernig íslenskri tungu og menningu farnast eftir því sem tæknin verður sífellt stærri hluti af daglegu lífi fólks.

Íslenska er ekki ofarlega á lista hjá stórum tæknifyrirtækjum og stendur öðrum tungumálum að baki hvað varðar úrval og gæði máltæknilausna. Og ef stór gervigreindarlíkön hafa ekki greiðan aðgang að íslenskum menningararfi mun hann hvorki endurspeglast nægilega vel í svörunum né myndefninu sem líkönin birta notendum.

„Ég vonast til að finna leið til að gera þetta sjálfbært. Ég hafði ekki hugsað mér að tapa peningum á þessu endalaust.“

Markaðsbrestir standa þó í vegi fyrir því að einkaframtakið geti aukið veg tungumálsins óstutt. Sum verkefni á sviði máltækni snúast um grunnrannsóknir og eiga því helst heima innan háskóla og rannsóknarstofnana.

Í öðrum tilfellum þarf styrki frá hinu opinbera til að minnka áhættuna ef þróunarstarf einkafyrirtækja er dýrt og markaðslegar forsendur takmarkaðar. Sem dæmi er óljóst hvort sjálfvirkar þýðingar á sjónvarpsefni geti staðið undir sér án sameiginlegs átaks einkafyrirtækja og stuðnings frá hinu opinbera.

„Sumu verður sinnt í akademíunni og ríkisstofnunum en öðru er best fyrir komið hjá einkafyrirtækjum, sérstaklega það sem snýr að vöruþróun, þar sem bregðast þarf skjótt við þörfum markaðarins. Við höfum áhyggjur af því ef þróunarstarf í máltækni verður að mestu leyti lokað inni í stofnunum eða akademíunni,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson í samtali við Hluthafann.

Máltæknilausnir fyrir stór markaðssvæði, svo sem Grammarly sem les yfir enskan texta, geta staðið undir sér og vel það á alþjóðlegum markaði. Annað gildir um lausnir Miðeindar sem einskorðast við íslenska örmarkaðinn.

Ólíkar lausnir, sem gera notendum meðal annars kleift að láta gervigreind lesa yfir texta, umrita tal í texta og þýða milli íslensku og annarra tungumála, eru sameinaðar í áskriftarþjónustunni Málstaður.

Þrátt fyrir að notendur að Málstað séu orðnir fleiri en 15 þúsund og þrátt fyrir opinbera styrki, svo sem úr Markáætlun í tungu og tækni og Tækniþróunarsjóði, er enn töluverður halli á rekstrinum.

Það er alls óvíst, segir Vilhjálmur, að áskriftartekjurnar geti einar og sér staðið undir þróunar- og rekstrarkostnaði nema drjúgur hluti landsmanna kaupi áskrift. Á síðasta ári störfuðu að meðaltali 13 manns hjá Miðeind og launakostnaður slagaði upp í 200 milljónir. Á þessu ári hefur enn fjölgað í starfsmannahópnum og telur teymið nú 16 sérfræðinga.

„Þetta er stærsta teymið sem er að vinna í gervigreind og máltækni á Íslandi – og það kostar sitt,“ segir Vilhjálmur.

Afkoman af fjárfestingarstarfsemi Miðeindar var jákvæð um 14 milljónir í fyrra en það dugaði ekki til að vega upp á móti 47 milljóna króna halla í tæknihlutanum. Auk tekna og opinberra styrkja hefur uppbyggingin verið fjármögnuð úr vasa Vilhjálms sem setti 230 milljónir króna í félagið í formi hlutafjár árið 2022.

„Í stuttu máli þarf einhver að gera þetta og þetta fellur vel að því sem ég hef fengist við,“ segir Vilhjálmur þegar hann er spurður hvað honum gangi eiginlega til.

„Ég hef lengi unnið á sviði upplýsingatækni og látið mig varða málstað íslenskrar tungu. En ég vonast til að finna leið til að gera þetta sjálfbært. Ég hafði ekki hugsað mér að tapa peningum á þessu endalaust.“

Þótt Miðeind sé hefðbundið einkahlutafélag eins og sakir standa þá hefur félagið þá yfirlýstu stefnu að vera „tilgangsdrifið“ fremur en hagnaðardrifið. Auðnist því að skila hagnaði verður honum ekki skilað til hluthafans heldur fjárfest í tækni og verkefnum sem skortir markaðslegar forsendur.

Íslensk fyrirtæki kortleggja stærri skref í gervigreind
Umsvif Advania þýða að upplýsingatæknifélagið hefur betri yfirsýn en flest önnur yfir það hvernig gervigreind hefur verið innleidd í atvinnulífinu hérlendis og hvernig það hefur gengið í samanburði við önnur lönd.

Félagaformið kann hins vegar að breytast. Eitt helsta viðfangsefni stjórnar Miðeindar um þessar mundir er að kanna hvort annað félagaform þjóni betur markmiðum fyrirtækisins.

„Við erum að spá í hvaða form henti okkur, hvort sem það væri hefðbundið hlutafélagsform með sérsniðnum samþykktum eða þá jafnvel sjálfseignarstofnun sem hefur yfirráð yfir hlutafélagi,“ segir Vilhjálmur en ásamt honum sitja Kristín Pétursdóttir, varaformaður stjórnar Arion banka, og Hjálmar Gíslason, stofnandi GRID, í stjórn.

„Þetta er samræða sem er í gangi innan stjórnar og við gefum okkur tíma til að velta þessu fyrir okkur.“

Nærtækt dæmi er gervigreindarfyrirtækið Open AI sem er þannig úr garði gert að sjálfseignarstofnunin („non-profit“) Open AI hefur yfirráð yfir hlutafélagi, sem er hagnaðardrifið („for-profit“) og heldur utan um reksturinn.

Þetta fyrirkomulag er hannað til að samræma markmið sjálfseignarstofnunarinnar um að þróa örugga gervigreind í þágu mannkyns og þörfina á að laða að umtalsvert fjármagn og hæfileikafólk til þróunar á gervigreindarlíkönum.

Eins má finna dæmi um stórfyrirtæki í Evrópu sem hafa samtvinnað arðsókn og annars konar tilgang. Stærsti hluthafinn í lyfjarisanum Novo Nordisk er samnefnd sjálfseignarstofnun sem styður við rannsóknir og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda.

Quest Portal með 160 þúsund notendur og tekjurnar vaxa hratt
Íslenska sprotafyrirtækið Quest Portal, sem hefur þróað lausn fyrir svokölluð spunaspil, er farið að skila umtalsverðum tekjum einungis einu og hálfu ári frá því að lausnin var sett í loftið. Nálgun stofnenda er nokkuð frábrugðin fyrri atrennum í leikjabransanum – fyrst hjá Plain Vanilla og síðan Teatime – því nú er mikil

Þá var norska sjálfseignarstofnunin Tinius Trust lengi vel stærsti hluthafinn í fjölmiðlaveldinu Schibsted Media, sem var skráð á hlutabréfamarkaði og rekur meðal annars Svenska Dagbladet og Aftenposten.

Árið 2023 náðist samkomulag um að Tinius Trust keypti alla fjölmiðlana úr rekstrinum en hvatinn á bak við þá ákvörðun var sá að erfitt þótti að samrýma fjölmiðlarekstur og skammtímasýn hlutabréfamarkaðarins.

En hvernig verður fjármögnun Miðeindar háttað ef rekstrarforminu verður breytt í sjálfseignarstofnun? Vilhjálmur segir að spurningin sé hluti af umræðunni sem fer nú fram innan stjórnar.

„Eigum við ekki að segja að það séu ýmsir möguleikar í þeim efnum. Áhugasamir einstaklingar gætu viljað styrkja málstaðinn, og það er hugsanlegt að opinberar stofnanir geti tekið þátt í sjálfseignarstofnun. Svo er ekki útilokað að erlendir sjóðir hafi áhuga á að leggja hönd á plóg. Ég nefni sem dæmi að danski Carlsberg-sjóðurinn hefur komið að því að fjármagna rannsóknarsetur hér á landi.“

Umfjallanir