Bláa lónið Ísland, sem rekur baðlónið á Reykjanesi og er hluti af stærri samstæðu ferðaþjónustufyrirtækja, horfði upp á tekjurnar dragast saman um 26,6 milljónir evra, jafnvirði 3,9 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári sem litaðist af rýmingum og lokunum.
Sex sinnum gaus í nágrenni Bláa Lónsins í fyrra og alls stóðu gosin yfir í 121 dag. Rýma þurfti starfsstöðvar félagsins í Svartsengi í hvert sinn sem gos hófst og var baðstaðurinn lokaður í 71 dag. Þetta leiddi til þess að tekjurnar minnkuðu úr 133,4 milljónum evra niður í 95 milljónir evra á milli ára.
Í þessu samhengi ber að hafa í huga að verslunareiningar, sem áður voru hluti af tekjustraumi félagsins, voru yfirteknar af systurfélaginu Blue Lagoon Skincare ehf. Vörusala, sem nam meira en 11 milljónum evra árið 2023, fluttist því yfir í annað félag.

Þegar búið er að taka vörusöluna úr reikningsdæminu nam tekjusamdráttur baðlónsins, tveggja hótela og veitingarekstrar 26,6 milljónum evra eins og áður sagði. Heildarkoman, sem hafði verið jákvæð um 17 milljónir evra árið 2023, snerist síðan í 4 milljóna evra tap.
Hluti af þeim tekjum sem Bláa lónið fór á mis við rann til annarra baðlóna. Sky Lagoon, sem rekur baðlón á Kársnesi í Kópavogi, horfði upp á ævintýralegan vöxt á síðasta ári þegar tekjurnar jukust um nærri 28 prósent, alls 1,4 millarða króna, á meðan fjöldi ferðamanna stóð nokkurn veginn í stað.
Samkvæmt skýrslu stjórnar Bláa lónsins eru stjórnendur bjartsýnir á framhaldið. Þar kemur fram að viðbragðsaðilar og stjórnendur félagsins hafi öðlast reynslu í því að meta hættuna hverju sinni og hvernig best sé að bregðast við eldgosum og öðrum jarðhræringum á svæðinu, auk þess sem reistir hafa verið traustir varnargarðar umhverfis Svartsengi.

Lokunartími starfseminnar hefur því styst verulega með hverju eldgosi og það sem af er ári hefur aðeins verið lokað í tvo daga.
„Það standa því vonir til þess að komi til frekari lokana vegna eldgosa muni þær vara skemur en áður og ekki hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins.“
Samstæða Bláa lónsins er eigandi Hálendisbaðanna í Kerlingafjöllum, fer með stóra eignarhluti í Jarðböðunum á Mývatni og Laugarvatni Fontana, og stendur á bak við uppbyggingu á Fjallaböðunum í Þjórsárdal.
Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti eigandi samstæðu Bláa lónsins, sagði í viðtali við Þjóðmál um miðjan apríl að stefnt væri að því að skrá fyrirtækið á markað á næsta ári ef aðstæður leyfa.