Það hafa verið skiptar skoðanir á markaði um breska lánafélagið Ortus, sem Kvika keypti snemma árs 2022. Kaupin voru gerð á „sérlega slæmum tíma“ að sögn greinanda – rétt áður en fjármögnunarkostnaður hækkaði snarpt – og jafnframt gætti misskilnings á markaði um starfsemi félagsins. Nú er reksturinn hins vegar kominn í mun betra horf og veruleg tækifæri geta falist í því að framkvæma upphaflega planið um að fjármagna lánafélagið betur.
Ársreikningur Kviku Limited, sem var skilað til bresku fyrirtækjaskrárinnar í síðustu viku, sýnir hagnað upp á 7,6 milljónir punda eftir skatta, sem er jafnvirði 1 milljarðs króna og langtumbetri afkoma en árið 2023 þegar reksturinn skilaði einungis 232 þúsunda punda hagnaði.
Breska starfsemin samanstendur af fyrirtækjaráðgjöf, eignastýringu og lánastarfsemi, sem fer fram í gegnum dótturfélagið Ortus. Heildartekjur Kviku í Bretlandi námu 24,6 milljónum punda í fyrra eftir 28 prósenta vöxt milli ára. Megnið má rekja til þess hvernig lánabók Ortus stækkaði, sem endurspeglast í því að vaxtatekjur jukust úr 16,5 milljónum punda upp í 21 milljón.
„Lánabókin hefur vaxið í takt við sterka eftirspurn á árinu 2024 og arðsemi hefur verið sterk þar sem stórum hluta lána hefur verið breytt í fljótandi vexti, og fallandi stýrivextir Englandsbanka hafa minnkað fjármögnunarkostnað,“ segir í skýrslu stjórnar.
Alexander Jensen Hjálmarsson, eigandi greiningarfélagsins Akkur, segir að það hafi verið skiptar skoðanir á bresku starfsemi Kviku og jafnvel hafi gætt grundvallarsmisskilning á markaði.
„Það voru aðilar á markaðinum sem héldu að Ortus væri í „pöbbastarfsemi“, þ.e.a.s. að fjárfesta í eða lána pöbbum. Hið rétta er að þetta eru fasteignaveðlán með tiltölulega lágt lánshlutfall,“ segir Alexander.