Beint í umfjöllun

Kvika sækir inn á íbúðalánamarkað eftir söluna á TM

Kvika banki mun sækja inn á íbúðalánamarkað þegar búið er að ganga frá sölunni á tryggingafélaginu TM. Þetta kom fram í máli Ármanns Þorvaldssonar, forstjóra Kviku, eftir birtingu á uppgjöri bankans í gær.

„Það eru margir sem halda að við séum að bakka út úr samruna sem varð fyrir tveimur árum, að allt verði eins og það var þá, og að þetta hafi verið mikil mistök. Því er alls ekki þannig farið,“ sagði Ármann á uppgjörsfundinum.

Kvika horfir til þess að viðhalda fjárhagslegum styrkleika eftir söluna á TM. Það þýðir að eftir frágang sölunnar og útgreiðslu til hluthafa haldi Kvika eftir því sem nemur efnislegu eigin fé TM, sem er í dag um 13-14 milljarðar króna.

„Við erum að fara að nýta þennan pening [til að] að ná markmiði bankans um arðsemi á eigið fé, sem er í dag 20 prósent á efnislegt eigið fé.“

Þetta kallar á vöxt í lánabókinni og þýðir að Kvika mun gera „ýmsa nýja hluti“ að sögn Ármanns. Og ein stærsta nýjungin sem bankinn er með í smíðum eru íbúðalán.

„Við [...] höfum í fyrsta lagi fjármögnunina til þess að fara inn á þann markað. Við ætlum að byggja þetta upp eins og Auði; þetta verða íbúðalán án þess að við séum með útibú eða mikla þjónustu. Við munum leggja áherslu á að þetta verði mjög sjálfvirkt,“ sagði Ármann og benti á að rafrænar þinglýsingar væru á næsta leiti.

„Þegar kemur að íbúðalánum þá þurfum við ekki að bjóða eina vöru fyrir alla landsmenn – við getum miðað á ákveðna hópa. Og við teljum að það gefi okkur tækifæri til að byggja upp ágætlega stórt íbúðalánasafn þótt það sé auðvitað þannig að við verðum aldrei „risa-player“ á markaðinum miðað við eiginfjárstöðu okkar í dag.“

Umfjallanir