Umsvif Advania þýða að upplýsingatæknifélagið hefur betri yfirsýn en flest önnur yfir það hvernig gervigreind hefur verið innleidd í atvinnulífinu hérlendis og hvernig það hefur gengið í samanburði við önnur lönd.
Advania-samstæðan er orðin stærsta óskráða upplýsingatæknifélag Evrópu með 5000 starfsmenn í níu löndum og ársveltu upp á 250 milljarða króna. Og af þeim má rekja 19 milljarða til umsvifa fyrirtækisins á Íslandi.
Hildur Einarsdóttir tók við sem forstjóri Advania á Íslandi í mars. Hún kom frá Emblu Medical, sem áður hét Össur, þar sem hún var framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs eftir að hafa leitt alþjóðlegt markaðsstarf og stefnumótun.
Hildur situr einnig í Vísinda- og nýsköpunarráði, sem er á vegum forsætisráðuneytisins og gegnir því hlutverki að efla stefnumótun og samhæfingu á þessu sviði.
„Tækniframfarir sem gera gagn og skapa virði hafa alltaf verið mér mjög hugleiknar og ekki síður aðferðafræðin við að meta fjárfestingar í nýsköpun, hvort sem sú nýsköpun á við framþróun í rekstri, vörum eða þjónustuframboði,“ segir Hildur.
„Það hefur því verið gríðarlega áhugavert að fylgjast með innreið gervigreindar síðustu ár og að það að fá að taka þátt í að styðja fyrirtæki og stofnanir í að hagnýta hana fyrir hina ýmsu geira er ómetanlegt tækifæri.“

Gervigreindinni fleygir fram á ógnarhraða. Sem dæmi nefnir Hildur nýleg kaup Advania á The AI Framework, sænsku ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í innleiðingu gervigreindarlausna.
Félagið er mjög ungt, stofnað árið 2021, en hefur á skömmum tíma náð að komast til metorða með farsælli innleiðingu gervigreindar í ólíkum atvinnugreinum.
Hvernig hefur gengið að innleiða gervigreindarlausnir í íslensku atvinnulífi?
„Mér finnst íslenski markaðurinn hafa verið svolítið lengi að taka við sér. Tilfinningin er sú að fyrirtæki á öðrum mörkuðum séu komin lengra og staðreyndirnar tala líka sínu máli í þessum efnum. Við viljum hvetja íslenskt atvinnulíf til dáða í hagnýtingu gervigreindar og leggjum mikinn þunga á að styðja við þá framþróun með lausnum, ráðgjöf og innviðum,“ segir Hildur.
Advania hefur sett mikið púður í fjárfestingar á sviði gervigreindar. Áður en tilkynnt var um kaupin á The AI Framework hafði fyrirtækið greint frá samstarfi við NVIDIA um uppsetningu á séríslensku gervigreindarskýi.
Skýið er sagt tryggja íslensku atvinnulífi aðgengi að nauðsynlegu reikniafli og takmarka nauðsyn fyrirtækja á fjárfestingum við innleiðingu og nýtingu gervigreindar.
Þá tilkynnti Advania í þessari viku um kaup á Gompute, sem sérhæfir sig í lausnum fyrir gervigreindarinnviði og var keypt frá gagnaversfyrirtækinu atNorth.

„Þetta gerir okkur kleift að bjóða upp á innviðina og stuðninginn sem þarf til að fyrirtæki geti byrjað, hvort sem um stór eða smá verkefni eru að ræða. Miklar fjárfestingar í ofurtölvum verða því ekki hindrun í vegi íslenskra sprotafyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við erlend tæknifélög.“
Hildur segist sjá merki um að íslensk fyrirtæki séu að undirbúa stærri skref á sviði gervigreindarlausna.
„Ég finn það í samtölum við viðskiptavini og stjórnendur í íslenskum fyrirtækjum að allir velta fyrir sér hvernig þeirra vegferð muni vera. Mörg fyrirtæki hafa byrjað og opnað á ákveðin gervigreindartól, en nú eru þau farin að hugsa stærra og kortleggja tækifærin sem felast í stærri verkefnum þar sem gervigreindarlausnir eru sérsniðnar að þeirra rekstri.“
Gervigreind og hagnýting hennar verða fyrirverðarmikil umræðuefni á árlegri Haustráðstefnu Advania, sem fer fram í byrjun september. Það er af góðri ástæðu enda mun gervigreind, segir Hildur, hafa mikið að segja um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, bæði á alþjóðavísu og á heimamarkaðinum.

„Það sem mér finnst mikilvægt er að stóru félögin sofni ekki á verðinum og vakni ekki upp við það að smærri og skjótari fyrirtæki hafa nýtt sér tæknina til að taka stór skref. Hættan fyrir stór fyrirtæki er sú að ef þau eru mjög svifasein að þá séu þau skyndilega komin með samkeppnisaðila sem er hraðari. Þröskuldurinn til að ráðast í stærri breytingar hefur lækkað,“ segir Hildur.
„Og með sama hætti getur smæðin hjálpað okkur í alþjóðlegri samkeppni. Tækifærið fyrir okkur sem lítið land í alþjóðlegri samkeppni felst í því að vera sprotarnir sem eru fljótir að nýta tæknina til fulls. En þá þurfum við að fylgja þessari tækniþróun fast eftir því annars missum við af lestinni.“
Hvað er það sem heldur aftur af íslenskum fyrirtækjum við innleiðingu á gervigreind?
„Dæmi um áskoranir í þessum málaflokki snúa að gögnum og gagnaöryggi. Sumir hafa áhyggjur af því að það þeir séu að opna á öll gögn gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins, eða að gögnin séu nýtt til að þjálfa gervigreindarlíkön sem gagnast keppinautum á markaði,“ segir Hildur.
„Þess vegna er mjög mikilvægt, og í raun lykillinn að árangursríkri innleiðingu, að fyrirtæki séu með gagnaöryggi á hreinu og séu meðvituð um hýsingu gagna sinna.“
Hvers konar gervigreindartól munum við sjá innleidd í íslenskum fyrirtækjum?
„Það er af mörgu að taka. Gervigreindar-agentar eru ryðja sér til rúms í hinum ýmsu tækniumhverfum en þeir geta unnið flókin verk, hratt, á fjölmörgum sviðum. Fyrirtæki eru að keyra stærri verkefni sem stuðla að aukinni skilvirkni í rekstri og nýsköpun. Til dæmis eru til öflug tól sem nýtast við hugbúnaðarþróun, bæði við að skrifa kóða og leita uppi villur. Það hefur mikil áhrif enda margt sem mannfólkið kemur ekki auga á strax í þessu ferli.“
Erum við nú þegar byrjuð að sjá merkjanlegan ávinning af innleiðingu gervigreindarlausna hér á landi?
„Þegar gervigreindin ruddi sér til rúms og tók yfir umræðuna, þá var möguleiki á því að þetta yrði betri hugmynd á blaði en í praxís. En núna erum við að sjá mælanleg áhrif í rekstri fyrirtækja,“ segir Hildur.
„Áhugaverðustu og áhrifaríkustu dæmin eru þau þegar fyrirtæki og stofnanir hugsa verklag upp á nýtt, og stilla því upp með gervigreindina í huga frá upphafi.“
Sem dæmi um tækifæri innan heilbrigðiskerfisins nefnir hún rannsóknir á hagnýtingu gervigreindar í krabbameinsskimunum við Karolinska-sjúkrahúsið og háskólann í Lundi. Þessar rannsóknir hafa sýnt umtalsverða bætingu í að greina krabbameinsmyndum og á sama tíma fækkar ranglega greindum tilfellum.
„Og eitt af því sem stjórnendur fyrirtækja, og þá einkum í Evrópu og Skandinavíu, nefna allir er að þeir finni fyrir miklum ávinningi í ákvarðanatöku. Þeir eru miklu fljótari að greina gögn, leggja þau fram og taka ákvarðanir. Þetta er eitthvað sem er erfitt að mæla beint en kemur skýrt fram þegar maður ræðir við stjórnendur.“
Sérðu þá fyrir þér að gervigreindin muni hafa raskandi áhrif á vinnumarkaðinn, t.d. með því að ryðja ákveðnum störfum úr vegi?
„Mun gervigreindin breyta því hvernig við vinnum? Alveg klárlega. Mun hún skapa öðruvísi störf? Hundrað prósent. En það er gaman að sjá fyrirtæki hugsa þetta frekar út frá því að þau séu með öflugan starfsmann sem eyði of miklum tíma í handavinnu þar sem hættan á mannlegum mistökum er mikil og spyrji sig hvernig hægt sé að nýta krafta hans í meira virðisskapandi verkefni,“ segir Hildur.
„En þetta hefur áhrif á vinnumarkaðinn á þann hátt að við þurfum að skapa störf sem krefjast sérþekkingar á gervigreind og það er ekki ofgnótt af slíkum sérfræðingum um þessar mundir.“