Beint í umfjöllun

Eftir lög­festingu á hækkun veiði­gjalda í fyrra er ekkert lát á sölu afla­heimilda í króka­kerfinu svo­nefnda, sem nær utan um smábátaú­gerðir, og einnig hefur borið á aukningu í því að óvirkir eig­endur í stærri út­gerðarfélögum vilji selja sinn hlut. Þetta kemur fram í nýju árs­yfir­liti Aflamiðlunar, sem sér­hæfir sig í að hafa milli­göngu um kaup og sölu á afla­heimildum.

Frum­varp at­vinnu­vegaráðu­neytisins um breytingu á veiðigjöldum var samþykkt á Alþingi um mitt sumar 2025 en það snerist í grunninn um að miða reikni­stofn veiði­gjalda við markaðsverð, ýmist á Ís­landi eða í Noregi eftir því hvaða fisk­tegund er um að ræða.

Ráðu­neytið taldi ekki að frum­varpið hefði áhrif á samþjöppun í sjávarút­vegi, enda hefði verið brugðist við þeim áhyggjum með því að hækka frí­tekju­mark fyrir litlar og meðal­stórar út­gerðir.

„Ekkert lát er á sölum í króka­kerfinu þar sem hver út­gerðin á fætur annarri [með kvóta undir 100 tonnum] sér hag sinn í að selja og fara frekar með peninginn inn á vaxta­bók eða sækja sömu heimildir í gegnum strand­veiði­kerfið eða byggða­kvóta,“ segir í árs­yfir­liti Afla­heimilda.

Við­skipti með hlut­deildir í afla­marks­kerfinu, sem nær yfir kvóta stærri út­gerða, hafa ekki verið neitt í líkingu við þá „hreinsun“ sem Aflamiðlun merkir í króka­kerfinu. Þó hefur borið á aukningu í því að fjöl­skyldur eða aðstand­endur í út­gerðum, sem ekki koma að dag­legum rekstri, sjái hag sinn í því að losa um hlutinn.

Umfjallanir