Öldrun þjóðarinnar, sem leiðir af því að fæðingartíðni hefur hríðfallið á síðustu árum, verður kostnaðarsöm hvernig sem á það er litið. Að óbreyttu mun þessi þróun setja verulegan þrýsting á ríkisfjármálin þegar fram í sækir og jafnframt eru vísbendingar um að öldrun dragi úr nýsköpun þjóða. Aðgerðir til að leysa þennan vanda með auknum stuðningi við fjölskyldur eru hins vegar dýrar og skila ekki mögulegum ávinningi fyrr en að áratugum liðnum.
Frjósemisvandinn fer vaxandi
Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur sett frjósemi á oddinn enn sem komið er. Það kemur þó sífellt betur í ljós hversu brýnt er að bregðast við öldrun þjóðarinnar.