Beint í umfjöllun

Festi sér olíutekjur leka úr landi eftir hækkun kolefnisgjalds

Michael Held / Unsplash

Ásta Fjeldsted, forstjóri Festi, segir að hækkun kolefnisgjalds um áramótin hafi gert það að verkum að skip kaupi eldsneyti í auknum mæli í Færeyjum.

Festi, sem rekur meðal annars N1 og Krónuna, birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í vikunni þar sem fram kom að olíusala, mæld í lítrum, hefði minnkað um heil 11,9 prósent milli ára.

Lækkunin skýrist aðallega af minni sölu á skipaeldsneyti og á uppgjörsfundinum nefndi Ásta að kolefnisgjaldið, sem hækkaði um nærri 60 prósent um áramótin, væri ein ástæða á bak við samdrátt í seldum lítrum.

„Hér má kannski leyfa sér að benda á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar um að leggja á kolefnisgjöld gera það að verkum að það eru fleiri sem nýta sér það tækifæri að taka eldsneyti utan landsteinanna þar sem skattlagning er lægri og við verðum því af þessari mikilvægu sölu,“ sagði Ásta.

„Dýrasta skip Íslandssögunnar“ selt til Norðmanna
Havila Holding, fjárfestingafélag sem er í eigu norsku Sævik-fjölskyldunnar, hefur fest kaup á skipinu Polarsyssel, sem var í eigu Fáfnis Offshore og sagt „dýrasta skip Íslandssögunnar“ þegar það var sjósett árið 2014. Polarsyssel kostaði meira en fimm milljarða króna og var smíðað til þess að þjónusta olíu- og gasborpalla á

„Maður spyr sig hvort ný ríkisstjórn, sem fór í miklar hagræðingaraðgerðir, átti sig á því að þarna er gat í skatttekjum, sem leka líklega beint til frænda okkar í Færeyjum.“

Alls minnkaði salan hjá Festi um 5,5 milljónir lítra milli ára. Miðað við kolefnisgjaldið á gas- og dísilolíu, sem stendur í 21,4 krónum á hvern lítra eftir snarpa hækkun um áramótin, varð ríkið af meira en 100 milljóna króna tekjum af kolefnisgjaldi vegna olíusölu Festi á fjórðungnum.

Ekki liggur þó fyrir hversu stóran hlut af samdrættinum má rekja til kolefnisleka, þar sem fyrirtæki breyta hegðun sinni vegna skattlagningar, og hversu stóran hlut má rekja til minni umsvifa í sjávarútvegi á þessu ári.

Áformað er að hækka kolefnisgjaldið enn frekar, nú um 25 prósent. Útgerðir geta í dag fengið olíu í Færeyjum á 28 prósenta lægra verði en hér á landi og með fyrirhugaðri breytingu eykst munurinn í 34 prósent.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur varað við þeirri þróun að skattkerfið flytji olíukaup fiskiskipa til annarra landa því þá aukist líkurnar á að skip landi aflanum sínum þar. Þá hefur hún bent á að bæði Noregur og Danmörk hafi ákveðið að undanskilja fiskiskip að mestu frá kolefnisgjaldi.

Umfjallanir