Beint í umfjöllun

Eigandi Prís og Heimkaupa tapaði 2 milljörðum eftir stóra virðisrýrnun

Atlaga ehf., sem rekur dagvöruverslanir undir nokkrum vörumerkjum og vinnur nú að sameiningu við Samkaup, tapaði 2,1 milljarði króna á síðasta ári.

Verslanirnar sem eru á snærum Atlögu eru vefverslunin Heimakaup, nýja lágvöruverðsverslunin Prís, þrjár 10-11 verslanir, þrjár Extra-verslanir og loks þrjár verslanir þar sem Orkan selur eldsneyti. Þá var Lyfjaval einnig hluti af fyrirtækinu á síðasta ári en það rekur sjö apótek.

Tekjur Atlögu námu 5,9 milljörðum króna á síðasta ári og EBITDA – rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir – var neikvæð um ríflega 200 milljónir samanborið við 40 milljóna króna halla á árinu 2023.

Heildarafkoman var hins vegar neikvæð um 2,1 milljarð króna en það skýrist af stórri niðurfærslu á viðskiptavild.

„Rekstur ársins 2024 litast verulega af endurskipulagningu rekstrar félagsins og lakari afkomu ákveðinna rekstrareininga. Í ljósi þess eru færð virðisrýrnun á óefnislegar eignir að fjárhæð 1.000 milljónir króna.“

Samkaup og Heimkaup í kappi við tímann
Samkaup og Heimkaup, sem hafa skilað inn samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins, telja „nauðsynlegt“ að rekstrarleg samþætting félaganna hefjist áður en eftirlitið fellir sinn dóm. Annars er hætt við því sameinað félag verði fyrir fjárhagslegu tjóni og verr í stakk búið til að veita „turnunum tveimur“, Festi og Högum, samkeppnislegt aðhald. Smásölufélögin

Atlaga bókfærði viðskiptavild upp á 1,2 milljarða króna árið 2023 þegar fyrirtækið tók yfir smásölurekstur Orkunnar, þar á meðal 10-11, Extra og Lyfjaval. Við yfirtökuna varð Orkan, sem í eigu SKEL fjárfestingarfélags, stærsti hluthafinn með ríflega 70 prósent. Nú hefur megnið af viðskiptavildinni verið bakfært en virðisrýrnunarprófið byggir á fyrirliggjandi samrunasamningi félagsins við Samkaup.

Samruninn er til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en félögin fengu undanþágu svo að hefja mætti framkvæmdina áður en niðurstaðan lægi fyrir. Félögin sögðust hafa verið í verulega krefjandi rekstraraðstæðum og að tafir á framkvæmd samrunans gæti skaðað hið sameinaða félag fjárhagslega.

„Mun áframhaldandi rekstur eðli málsins samkvæmt þvinga aðila til enn frekari álagningar til þess að auka framlegð til skammtíma og er alls óvíst hvort félögin yrðu rekstrarhæf samkvæmt þeim sviðsmyndum,“ sagði í samrunatilkynningunni.

Lyfjaval er ekki hluti af samrunanum og í lok febrúar fór fram hlutafjárlækkun í Atlögu þar sem eignarhlutur félagsins í apótekakeðjunni var færður til hluthafa félagsins. Þannig var hlutafé lækkað annars vegar um 3.426 milljónir króna að nafnverði á móti ójöfnuðu tapi og hins vegar 2.454 milljónir með afhendingu á öllum eignarhlut félagsins í Lyfjaval auk kröfu á dótturfélagið Lyfsalann.

Umfjallanir