Bandaríska eignastýringarfélagið Eaton Vance hefur haldið áfram að byggja upp stöðu í Arion banka og fer nú með 3 milljarða hlut í bankanum eftir nýleg viðskipti.
Hluthafinn greindi frá því um miðjan apríl að Eaton Vance hefði á skömmum tíma tvöfaldað vægi íslenskra hlutabréfa í þeim tveimur sjóðum sem eiga mest undir íslenska markaðinum.

Hvað Arion banka varðar áttu sjóðirnir alls 3,6 milljónir hluta í lok október og þegar komið var fram í lok janúar á þessu ári var eignin orðin í 6,6 milljón hluta. Þá birtist bandaríska félagið á listanum yfir stærstu hluthafa bankans um miðjan apríl með 16,1 milljón hluta.
Þegar Arion banki birti síðan uppfærðan hluthafalista í lok síðustu viku kom í ljós að Eaton Vance á nú 19,1 milljón hluta, sem jafngildir 3 milljarða króna eign í bankanum og samsvarar 1,3 prósentum af hlutafé.
Þó að sjóðirnir tveir, Global Macro Absolute Return Advantage og Global Macro Portfolio, hafi tvöfaldað vægi íslenskra hlutabréfa hafa þeir áður verið umsvifameiri hér á landi. Þeir byrjuðu að kaupa íslensk bréf síðla árs 2015 og voru komnir með 25 milljarða króna stöðu um mitt ár 2018 áður en þeir seldu sig niður.
Fréttin er hluti af vikulegu fréttabréfi Hluthafans