Fjármálaráðuneytið birti í gær áform um innleiðingu Evrópureglugerðar sem leiðir til styttri uppgjörstíma verðbréfaviðskipta.
Með uppgjörstíma er átt við tímann frá degi viðskipta með fjármálagerninga til afhendingar. Meginreglan er nú T+2 á Evrópska efnahagssvæðinu, en frá október 2027 verður hún T+1.
Ráðuneytið segir að breytingin krefjist uppfærslu fjármálainnviða. Umbætur á kerfum og ferlum geti orðið kostnaðarsamar, en aukin skilvirkni verði markaðnum til hagsbóta.

Þá segir ráðuneytið að framkvæmd gjaldeyrisviðskipta í tengslum við uppgjör viðskipta kunni að fela í sér áskorun hér á landi. Hins vegar var það áður svo að viðskipti með íslensk skuldabréf voru gerð upp næsta bankadag (T+1).
„Íslenskt fjármálakerfi býr að þeirri reynslu, að einhverju leyti,“ segir í áformaskjalinu.
Reglugerðin tengist uppbyggingu á sameiginlegum fjármagnsmarkaði í Evrópu. Breytingunni er þannig ætlað að styrkja samkeppnishæfni Evrópu, sem þykir hafa dregist aftur úr öðrum markaðssvæðum.
Í Bandaríkjunum, nefnir ráðuneytið sem dæmi, eru miðlægir innviðir verðbréfamarkaðar mun stærri og færri, sem eykur hagkvæmni og skilvirkni uppgjörs.
