Beint í umfjöllun

Atgervisleki og íslenska tungan

Þetta hefur ekki verið stór­kost­legt vanda­mál í efna­hags­legu til­liti en á ein­hverjum tíma­punkti hljótum við að gefa þessari þróun gaum.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson
Ritstjóri Hluthafans


Er­lendir sér­fræðingar sem flytja til landsins njóta skatt­fríðinda og um daginn voru fluttar fréttir af því að fimmti hver sér­fræðingur væri í raun ís­lenskur ríkis­borgari að flytja heim. Þetta kom fram í svari fjár­málaráðu­neytisins við fyrir­spurn frá þing­manni Sam­fylkingarinnar og má ætla að til­gangurinn hafi verið sá að varpa ljósi á sóun í ríkis­rekstrinum – enn eina skatt­glufuna sem stjórn­völd vilja loka. Í huga greinar­höfundar vaknaði önnur spurning: Hvers vegna gerum við ekki meira til að hvetja Ís­lendinga til að snúa heim?

Mesti land­flótti sem sést hafði í meira en hundrað ár – eða allt frá tímum vestur­fara – kom í kjölfarið á fjár­mála­hruninu 2008 þegar ríf­lega sex þúsund Ís­lendingar fluttu úr landi um­fram þá sem fluttu heim yfir fjögurra ára tíma­bil. Út­streymið minnkaði svo í takt við batnandi efna­hags­horfur. Engu að síður virðist stað­reyndin vera sú, sér­stak­lega ef við tökum hið óvenju­lega ástand í heims­far­aldrinum út fyrir sviga, að fleiri flytja á brott en heim. Þetta er enginn meiri­háttar flótti – frekar þrálátur leki. Ís­lenskum ríkis­borgurum sem eru bú­settir er­lendis fjölgar statt og stöðugt, og hlut­fall þeirra af heildar­fjölda ís­lenskra ríkis­borgara vex hægum skrefum frekar en hitt.

Þetta hefur ekki verið stór­kost­legt vanda­mál í efna­hags­legu til­liti, enda hefur stríður straumur af er­lendu vinnu­afli gengið í störf og haldið hag­kerfinu gangandi. Á ein­hverjum tíma­punkti hljótum við þó að gefa þessari þróun gaum, sér­stak­lega í ljósi þess hvernig sam­spil tækni­framtara og alþjóða­væðingar ógnar ís­lenskri tungu. Að þessu leyti er út­flæðis­vandi okkar frábrugðinn því sem önnur fjöl­mennari lönd glíma við.

Um­ræðunni um stöðu ís­lenskrar tungu miðar illa – hún hverfist um tákn­ræn smáat­riði og dægurþras frekar en það sem skiptir máli. Þing­maður hamast í Ríkisútvarpinu fyrir að halda úti fréttaþjónustu á ensku og pólsku, og háskólaprófessor gerir þá kröfu að inni­halds­lýsingar á plast­vörum séu á ís­lensku. Á samfélags­miðlum er svo kvartað yfir er­lendu af­greiðslufólki og vöru­merkjum.

Það eina sem skiptir máli og ræður því hvernig Ís­lendingar tala hver við annan eftir 50 ár er hversu vel gengur að kenna börnum ís­lensku á máltöku­skeiði. Yfirleitt er það svo að sá sem hefur gott vald á móður­máli sínu hefur sömu­leiðis áhuga á vexti þess og við­gangi – að miðla sinni færni til næstu af­kom­enda og svo koll af kolli. Þetta er or­saka­sam­hengið sem þarf að ræða miklu frekar en það hvort af­greiðslu­stúlka í bakaríi ávarpi full­orðið fólk á ensku eða ís­lensku, nú eða hvort hjúkrunar­fræðingur á Land­spítalanum tjái sig á máli sem 99 pró­sent af ís­lensku þjóðinni skilja nægi­lega vel. Það er sér­lega vægt gjald fyrir ávinninginn sem er fólginn í frjálsu flæði vinnu­afls.

„Eftir fáheyrða fjölgun er­lendra ríkis­borgara á Ís­landi, sem hafði veru­leg áhrif á þróun fast­eigna­verðs, er kannski til­efni til að staldra við og spyrja hvort al­mennu skil­yrðin fyrir heim­komu séu Ís­lendingum hag­felld“

Í um­ræðu um stöðu tungumálsins megum við ekki gleyma hópi sem sjaldan fær at­hygli en það eru ís­lensk börn sem eru bú­sett er­lendis. Ef­laust má rekja stóran hluta af bú­ferla­flutningum Ís­lendinga til þess þegar ungt fólk – oft með börn í eftirdragi eða í barn­eignar­hug – fer í nám er­lendis og snýr svo aftur heim eftir skamma hríð. Enginn skaði skeður. En þegar fólk ílengist með ung börn er hætta á því að íslenskan víki fyrir hinu ríkjandi tungumáli og að getan til þess að miðla málinu til næstu kynslóðar hverfi. Keðjan slitnar.

Þetta kann að hljóma heldur dramatískt og jafn­vel sem mildur þjóðrembingur í eyrum sumra. Setjum málið í sam­hengi með nokkrum tölum. Þjóðskrá birtir ár­lega tölur um fjölda ís­lenskra ríkis­borgara sem eru bú­settir er­lendis en þeir eru 51.822 um þessar mundir. Hlut­hafinn fór fram á sundur­liðun eftir aldurs­hópum og sýnir hún að ríf­lega 3 þúsund ís­lensk börn á aldrinum 0–5 ára, mikilvægasta máltöku­skeiðinu, eru nú bú­sett er­lendis saman­borið við 1.900 árið 2023. Það er meira en 50 pró­senta aukning á tveimur árum, sem er einkar for­vitni­legt, og fyrir jafn­lítið máls­væði og Ís­land er þetta ekki óveru­legur fjöldi.

Ef við skoðum þetta í víðara sam­hengi – bæði fjölda barna og fólks á barneignaraldri – þá eru 29 þúsund Ís­lendingar undir fer­tugu bú­settir er­lendis og hefur þeim fjölgað um 8 pró­sent á tveimur árum. Á sama tíma fækkar lítillega í eldri hópum.

Ólíkt vestur­förum í lok nítjándu aldar eru þeir sem nú hverfa á brott aftur­kræfir upp að vissu marki. Árið 2010 voru inn­leiddir skatta­legir hvatar á Ítalíu til að bregðast við snörpum at­gervis­flótta en þá fengu háskóla­menntaðir Ítalir sem sneru heim eftir dvöl er­lendis veru­legan af­slátt af tekju­skatti um nokkurra ára skeið. Seinna var hva­ta­kerfið út­víkkað til að ná einnig til lægri menntunar­stiga.

rannsóknar­rit­gerð sem fjallar um skil­virkni þessa úrræðis leiðir í ljós að fjórðungur af Ítölunum sem sneru til baka eftir árið 2010 hefði ekki gert það án skatta­legra hvata. Hva­ta­kerfið virkaði sem skyldi og það sem meira er, rann­sak­endur töldu lík­legt að það hefði jákvæð áhrif á ríkis­sjóð til lengri tíma litið.

Öllum er hollt að hverfa frá Ís­landi um skeið og víkka sjón­deildar­hringinn, og kannski er það svo að lang­sam­lega flestir snúa heim í tæka tíð þannig að börn þeirra hafi gott vald á tungmálinu, hugsi sínar hugsanir á ís­lensku, og miðli því áfram til næstu kynslóðar. Þá er þetta allt saman gott og blessað. En er það víst? Er ekki vert rannsóknar­efni hversu lengi börn dvelja er­lendis að jafnaði og hvort það dugi þeim 13 þúsund ung­mennum sem eru undir tvítugu að heyra ís­lenskuna einungis inni á heimilinu?

Þetta er til­tölu­lega ný þróun, og Ís­land er smærra og viðkvæmara menningar­svæði en mörg önnur. Eftir fáheyrða fjölgun er­lendra ríkis­borgara á Ís­landi, sem hafði veru­leg áhrif á þróun fast­eigna­verðs, er kannski til­efni til að staldra við og spyrja hvort al­mennu skil­yrðin fyrir heim­komu séu Ís­lendingum hag­felld og hvort bæði menningar­leg og efna­hags­leg rök hnígi að því að beita sértækum að­gerðum til að tryggja að svo sé.

Því ef draga má ein­hvern lær­dóm af því hvernig stjórn­málin hafa þróast á Vestur­löndum á síðasta ára­tug eða svo, þá er hann lík­lega sá að alþjóða­væðingin – eins og gjöful og hún hefur verið – er ekki galla­laus og til að standa vörð um hana þarf að bregðast tíman­lega við þeim varan­legu röskunum sem fólki hugnast ekki.

Umfjallanir