Þorsteinn Friðrik Halldórsson
Ritstjóri Hluthafans
Erlendir sérfræðingar sem flytja til landsins njóta skattfríðinda og um daginn voru fluttar fréttir af því að fimmti hver sérfræðingur væri í raun íslenskur ríkisborgari að flytja heim. Þetta kom fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn frá þingmanni Samfylkingarinnar og má ætla að tilgangurinn hafi verið sá að varpa ljósi á sóun í ríkisrekstrinum – enn eina skattglufuna sem stjórnvöld vilja loka. Í huga greinarhöfundar vaknaði önnur spurning: Hvers vegna gerum við ekki meira til að hvetja Íslendinga til að snúa heim?
Mesti landflótti sem sést hafði í meira en hundrað ár – eða allt frá tímum vesturfara – kom í kjölfarið á fjármálahruninu 2008 þegar ríflega sex þúsund Íslendingar fluttu úr landi umfram þá sem fluttu heim yfir fjögurra ára tímabil. Útstreymið minnkaði svo í takt við batnandi efnahagshorfur. Engu að síður virðist staðreyndin vera sú, sérstaklega ef við tökum hið óvenjulega ástand í heimsfaraldrinum út fyrir sviga, að fleiri flytja á brott en heim. Þetta er enginn meiriháttar flótti – frekar þrálátur leki. Íslenskum ríkisborgurum sem eru búsettir erlendis fjölgar statt og stöðugt, og hlutfall þeirra af heildarfjölda íslenskra ríkisborgara vex hægum skrefum frekar en hitt.

Þetta hefur ekki verið stórkostlegt vandamál í efnahagslegu tilliti, enda hefur stríður straumur af erlendu vinnuafli gengið í störf og haldið hagkerfinu gangandi. Á einhverjum tímapunkti hljótum við þó að gefa þessari þróun gaum, sérstaklega í ljósi þess hvernig samspil tækniframtara og alþjóðavæðingar ógnar íslenskri tungu. Að þessu leyti er útflæðisvandi okkar frábrugðinn því sem önnur fjölmennari lönd glíma við.
Umræðunni um stöðu íslenskrar tungu miðar illa – hún hverfist um táknræn smáatriði og dægurþras frekar en það sem skiptir máli. Þingmaður hamast í Ríkisútvarpinu fyrir að halda úti fréttaþjónustu á ensku og pólsku, og háskólaprófessor gerir þá kröfu að innihaldslýsingar á plastvörum séu á íslensku. Á samfélagsmiðlum er svo kvartað yfir erlendu afgreiðslufólki og vörumerkjum.
Það eina sem skiptir máli og ræður því hvernig Íslendingar tala hver við annan eftir 50 ár er hversu vel gengur að kenna börnum íslensku á máltökuskeiði. Yfirleitt er það svo að sá sem hefur gott vald á móðurmáli sínu hefur sömuleiðis áhuga á vexti þess og viðgangi – að miðla sinni færni til næstu afkomenda og svo koll af kolli. Þetta er orsakasamhengið sem þarf að ræða miklu frekar en það hvort afgreiðslustúlka í bakaríi ávarpi fullorðið fólk á ensku eða íslensku, nú eða hvort hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum tjái sig á máli sem 99 prósent af íslensku þjóðinni skilja nægilega vel. Það er sérlega vægt gjald fyrir ávinninginn sem er fólginn í frjálsu flæði vinnuafls.
„Eftir fáheyrða fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi, sem hafði veruleg áhrif á þróun fasteignaverðs, er kannski tilefni til að staldra við og spyrja hvort almennu skilyrðin fyrir heimkomu séu Íslendingum hagfelld“
Í umræðu um stöðu tungumálsins megum við ekki gleyma hópi sem sjaldan fær athygli en það eru íslensk börn sem eru búsett erlendis. Eflaust má rekja stóran hluta af búferlaflutningum Íslendinga til þess þegar ungt fólk – oft með börn í eftirdragi eða í barneignarhug – fer í nám erlendis og snýr svo aftur heim eftir skamma hríð. Enginn skaði skeður. En þegar fólk ílengist með ung börn er hætta á því að íslenskan víki fyrir hinu ríkjandi tungumáli og að getan til þess að miðla málinu til næstu kynslóðar hverfi. Keðjan slitnar.
Þetta kann að hljóma heldur dramatískt og jafnvel sem mildur þjóðrembingur í eyrum sumra. Setjum málið í samhengi með nokkrum tölum. Þjóðskrá birtir árlega tölur um fjölda íslenskra ríkisborgara sem eru búsettir erlendis en þeir eru 51.822 um þessar mundir. Hluthafinn fór fram á sundurliðun eftir aldurshópum og sýnir hún að ríflega 3 þúsund íslensk börn á aldrinum 0–5 ára, mikilvægasta máltökuskeiðinu, eru nú búsett erlendis samanborið við 1.900 árið 2023. Það er meira en 50 prósenta aukning á tveimur árum, sem er einkar forvitnilegt, og fyrir jafnlítið málsvæði og Ísland er þetta ekki óverulegur fjöldi.

Ef við skoðum þetta í víðara samhengi – bæði fjölda barna og fólks á barneignaraldri – þá eru 29 þúsund Íslendingar undir fertugu búsettir erlendis og hefur þeim fjölgað um 8 prósent á tveimur árum. Á sama tíma fækkar lítillega í eldri hópum.
Ólíkt vesturförum í lok nítjándu aldar eru þeir sem nú hverfa á brott afturkræfir upp að vissu marki. Árið 2010 voru innleiddir skattalegir hvatar á Ítalíu til að bregðast við snörpum atgervisflótta en þá fengu háskólamenntaðir Ítalir sem sneru heim eftir dvöl erlendis verulegan afslátt af tekjuskatti um nokkurra ára skeið. Seinna var hvatakerfið útvíkkað til að ná einnig til lægri menntunarstiga.
Ný rannsóknarritgerð sem fjallar um skilvirkni þessa úrræðis leiðir í ljós að fjórðungur af Ítölunum sem sneru til baka eftir árið 2010 hefði ekki gert það án skattalegra hvata. Hvatakerfið virkaði sem skyldi og það sem meira er, rannsakendur töldu líklegt að það hefði jákvæð áhrif á ríkissjóð til lengri tíma litið.
Öllum er hollt að hverfa frá Íslandi um skeið og víkka sjóndeildarhringinn, og kannski er það svo að langsamlega flestir snúa heim í tæka tíð þannig að börn þeirra hafi gott vald á tungmálinu, hugsi sínar hugsanir á íslensku, og miðli því áfram til næstu kynslóðar. Þá er þetta allt saman gott og blessað. En er það víst? Er ekki vert rannsóknarefni hversu lengi börn dvelja erlendis að jafnaði og hvort það dugi þeim 13 þúsund ungmennum sem eru undir tvítugu að heyra íslenskuna einungis inni á heimilinu?
Þetta er tiltölulega ný þróun, og Ísland er smærra og viðkvæmara menningarsvæði en mörg önnur. Eftir fáheyrða fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi, sem hafði veruleg áhrif á þróun fasteignaverðs, er kannski tilefni til að staldra við og spyrja hvort almennu skilyrðin fyrir heimkomu séu Íslendingum hagfelld og hvort bæði menningarleg og efnahagsleg rök hnígi að því að beita sértækum aðgerðum til að tryggja að svo sé.
Því ef draga má einhvern lærdóm af því hvernig stjórnmálin hafa þróast á Vesturlöndum á síðasta áratug eða svo, þá er hann líklega sá að alþjóðavæðingin – eins og gjöful og hún hefur verið – er ekki gallalaus og til að standa vörð um hana þarf að bregðast tímanlega við þeim varanlegu röskunum sem fólki hugnast ekki.