Beint í umfjöllun

Áformuð kaup franska sjóðastýringarfélagsins Ardian á gagnaverum Verne Global eru stór og jákvæð tíðindi, og segja má að þau hafi fallið í skugga annarra atburða í viðskiptalífinu, eins og ólgunni í Marel. Það sem skiptir mestu máli í þessu samhengi er að innkoma Ardian er líkleg til að hraða fjárfestingu í uppbyggingu gagnavera Verne Global, þar á meðal á Íslandi sem er stærsti hluti starfseminnar í dag.

Reynslan af kaupum franska fyrirtækisins á Mílu sýnir að áhrifin geta verið töluverð. Míla fór úr eignarhaldi Símans, skráðs félags sem þarf að halda fjárfestingum sínum í jafnvægi, yfir til sjóðastýringarrisa sem hefur mun meiri burði til að framhlaða fjárfestingum.

Í kjölfarið gáfu stjórnendur Ardian það út að Míla myndi fjárfesta í fjarskiptainnviðum fyrir 30 milljarða króna á fimm árum og þeir boðuðu jafnframt tífalt hraðari gagnamagnstengingar.

Ekki verður betur séð en að áhrifin birtist með skýrum hætti í nýrri tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu, sem sýnir að fjárfestingar í gagnaflutningum á fyrri árshelmingi tvöfölduðust úr 855 milljónum upp í 1.633 milljónir miðað við sama árshelming í fyrra.

Digital 9 Infrastructure, skráða fjárfestingafélagið sem er eigandi Verne Global í dag, glímir við lausafjárþurrð og mikla skuldsetningu, en á sama tíma fer fjárfestingaþörf gagnaveranna vaxandi. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í aukinni afkastagetu gagnaversins á Íslandi – úr 40 megavöttum í 94 megavött fyrir árslok 2027 – muni kosta 391 milljón punda, eða sem nemur 69 milljörðum króna. Þetta eru engar smáfjárhæðir og því skiptir máli fyrir þjóðarbúið að eigandinn hafi fjárhagslega getu til að fylgja áformunum eftir.

„Í tilfelli Verne ætlum við að styðja við metnaðarfull markmið stjórnenda um vöxt á Íslandi og á Norðurlöndunum,“ segir Pauline Thomson, yfirmaður stafrænnar þróunar hjá Ardian, í samtali við Hluthafann.

„Við sjáum Verne Global sem einstakt tækifæri til að fjárfesta í gagnaversrekstri, sem leggur áherslu á endurnýjanlega orku, og býður upp á stórvirka tölvuvinnslu (e. high-performance computing) en búist er við að sá markaður vaxi með veldisvexti eftir því sem notkun gervigreindar breiðist út um hagkerfið.”

„Óréttmætar“ kvaðir kostuðu Mílu hundruð milljóna króna
Kvaðirnar gera það að verkum að nánast allar viðskiptalegar ákvarðanir Mílu þurfa samþykki Fjarskiptastofu sem getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár.

Annar angi málsins er sú jákvæða þróun að erlenda fjárfestingin sem hingað berst komi frá fjárfestum sem tjalda ekki til einnar nætur. Með eignir upp á meira en 100 milljarða króna á Íslandi og langtímasýn verða hagsmunir Ardian að miklu leyti samofnir hagsmunum hagkerfisins. Þættir sem ráða efnahagsþróun til lengri tíma litið eru franska fyrirtækinu alls ekki óviðkomandi.

Síðast en ekki síst er gæðastimpill að Ardian ákveði að fjárfesta aftur ríkulega í íslenska hagkerfinu, sem hefur skort erlenda fjárfestingu.

„Við höfum hrifist af íslenska hagkerfinu, sem hefur sterkar grunnstoðir og mikla vaxtarmöguleika, sem helgast af kraftmikilli og vel menntaðri þjóð. En auðvitað eru áskoranir tengdar tiltölulega háu vaxastigi og verðbólgu,“ segir Thomson.

„Ísland nýtur einnig góðs af endurnýjanlegum og sjálfstæðum orkuauðlindum, sem fela í sér veigamikið samkeppnisforskot.“

Þetta veltur hins vegar allt á þróun mála á Reykjanesskaga. Eins og fram kom í tilkynningu Digital 9 eru kaupin háð því að eldgos, jarðhræringar og aðrir jarðfræðilegir atburðir, hafi ekki neikvæð áhrif á rekstur Verne Global.

Umfjallanir